Siðareglur

Siðareglur Verkís

22.5.2018

Verkís gerir sér grein fyrir mikilvægu hlutverki sínu sem þekkingarfyrirtæki í samfélaginu og hefur, á þeim grundvelli, samþykkt eftirfarandi siðareglur.
Siðareglur þessar haldast í hendur við gildi Verkís sem eru heilindi - metnaður - frumkvæði og taka til innri og ytri starfsemi fyrirtækisins.
Tilgangur siðareglnanna er að sporna við spillingu, draga fram samfélagslega ábyrgð fyrirtækisins og skerpa á þeim siðferðislegu viðmiðum sem Verkís leggur áherslu á í störfum sínum.

Almennt

 • Við leysum störf okkar samviskusamlega af hendi í samræmi við gott siðferði, heiðarleika og ábyrgð og stuðlum þannig að virðingu og góðu orðspori fyrirtækisins.
 • Við leggjum okkur fram um að eiga jákvæð, hreinskilin og heiðarleg samskipti við samstarfsfólk, viðskiptavini og aðra hagsmunaaðila.
 • Við virðum trúnað og gætum þagmælsku gagnvart samstarfsfólki og viðskiptavinum.
 • Við forðumst hagsmunaárekstra og gætum að hlutleysi í störfum okkar.

Þekking og miðlun

 • Við höldum faglegri þekkingu okkar og færni þannig að þjónusta okkar sé ávallt sú besta sem völ er á hverju sinni.
 • Við leitumst við að miðla þekkingu til hagsmunaaðila og samfélagsins með sjálfbæra þróun að leiðarljósi.

Samfélagsleg ábyrgð

 • Við leggjum áherslu á gagnsæi við allar ákvarðanatökur er varða starfsemi fyrirtækisins.
 • Við styðjum og virðum mannréttindi og viðurkennum mikilvægi þeirra í samræmi við viðmið Sameinuðu þjóðanna, alþjóðlega sáttmála og aðrar siðareglur.
 • Við leggjum okkur fram um að leita lausna og veita þjónustu sem samræmist meginreglum um sjálfbæra þróun.
 • Við höfum sett okkur verklagsreglur með það að leiðarljósi að hvetja til aukinnar samfélagslegrar vitundar og ábyrgðar og leggjum þannig áherslu á að sporna við óviðeigandi háttsemi.
 • Við virðum réttarríkið og viðurkennum að fylgni við lög og aðrar réttarreglur er ófrávíkjanleg.

Eftirfylgni

 • Verkís hvetur stjórnendur, yfirmenn, starfsfólk og aðra hagsmunaaðila til að ástunda siðferðislega og samfélagslega ábyrga háttsemi og tilkynna um óviðeigandi athafnir verði þeir varir við slíkt. Slík háttsemi getur átt sér stað innan sem utan vinnustaðarins.
 • Stjórnendur Verkís sjá til þess að siðareglur þessar séu kynntar, sýnilegar og þeim framfylgt.

Siðareglur þessar byggja m.a. á siðareglum FRV, FIDIC, VFÍ, ISO 26000 og almennt viðurkenndri háttsemi.