Hótel

Aðaltorg

Aðaltorg ehf. - Reykjanesbær

  • Aðaltorg Marriott Hótel

Verkís annaðist alla verkfræðihönnun og ráðgjöf. Verkefnið var unnið samkvæmt BIM aðferðafræðinni. 

 Stærðir: 6.000 m²
 Verktími:  2018 - 2020

Almennt um verkefnið:
Hótelið og verslunarkjarninn Aðaltorg er staðsett í Reykjanesbæ við gatnamót Aðalgötu og Reykjanesbrautar á leið út á Keflavíkurflugvöll. Hótelið er 6.000 m2 að stærð með 150 herbergjum til gistingar. Hótelið er hluti af Courtyard-keðju Marriott en sú keðja rekur yfir þúsund hótel um allan heim. Byggingaraðili hótelsins er fyrirtækið Aðaltorg ehf. í Reykjanesbæ

Herbergin 150 komu tilbúin í stáleiningum með flutningaskipi og voru settar saman á nokkrum dögum. Þessi byggingaraðferð stytti byggingartímann töluvert, eða um hálft til eitt ár. Verkís þurfti að koma með margar nýjar lausnir vegna byggingaraðferðarinnar en allt gekk upp. 

Verkefnið er unnið samkvæmt BIM aðferðafræðinni. Hótelið var allt teiknað upp í þrívídd: lagnir, loftræsing, rafkerfi, burðarvirki ásamt hönnun arkitekta. Öll samræming og árekstrargreining fór fram í gegnum skýþjónustuna BIM 360 og nýttist það mjög vel við að fækka mögulegum vandamálum á verkstað. Verkefnið er unnið samkvæmt BIM aðgerðaáætlun Verkís. 

Samhliða verkefninu var unnið framfaraverkefni hjá Verkís um járnbendingu í þrívídd með það að markmiði að þrívítt líkan af allri járnbendingu kæmi að miklu leyti í stað teikninga á verkstað. Mikill tími getur sparast með því að þurfa ekki að leita að teikningum og upplýsingum á verkstað. Hægt var að koma í veg fyrir mistök sem voru í uppsiglingu með því að nýta líkanið og hægt var að forbeygja og binda á staðnum í meiri mæli en vanalega. Með þessu verklag gefst tækifæri til að hagræða enn frekar með því að klippa og forbeygja allt bendistál í sjálfvirkum beygju- og klippivélum.

Fyrsta skóflustunga að hótelinu var tekin 19. júlí 2018 og var það tilbúið til notkunar í apríl 2020. 

Heimsmarkmið

  • Heimsmarkmið 9