Verkefni

Blönduvirkjun

Blönduvirkjun er staðsett í jökulánni Blöndu á Norðurlandi.

Virkjað rennsli er 39 rúmmetrar á sekúndu og fallhæð 287 m.

Nánar um verkefnið

Aðal uppistöðulón virkjunarinnar er 40 km norðvestur af Hofsjökli. Neðanjarðar stöðvarhús og tilheyrandi mannvirki eru staðsett 25 km neðar í ánni, um 40 km suður af Blönduósi.

Grjótfyllingarstíflurnar Blöndustífla og Kolkustífla mynda aðal uppistöðulón virkjunarinnar, Blöndulón.  Helstu mannvirki, sem heyra til  Blöndulóns, eru yfirfallsmannvirki, botnrás og veitumannvirki, sem veita vatni frá uppistöðulóninu að inntakslóni virkjunarinnar, 25 km leið gegnum skurði og vötn.  Inntakslónið, Gilsárlón, er myndað með stíflu í Gilsá neðan við Gilsvatn. Helstu mannvirki, sem tilheyra  Gilsárlóni, eru yfirfallsmannvirki og botnrás.  Aðrennslisskurður liggur frá Gilsárlóni að inntaki virkjunarinnar, sem er útbúið með ruslagrindum og inntakslokum.

Fallpípa úr stáli, 4,0 m í þvermál, leiðir vatnið frá inntakinu að þremur Francis vélum, sem staðsettar eru í neðanjarðar stöðvarhúsi.

Frá túrbínunum rennur vatnið út í frárennslisgöng, sem opnast út í frárennslisskurð í árfarveg Blöndu.  Aðkomugöng liggja að stöðvarhúshellinum.  Lóðréttur steyptur stokkur fyrir rafstrengi, loftræsingu og neyðarútgang liggur frá stöðvarhúsinu að spennum og stjórn- og rofahúsi, sem staðsett er á yfirborð jarðar.

Sérfræðingar Verkís unnu hagkvæmniathugun, verkhönnun, gerð útboðsgagna, deilihönnun byggingamannvirkja, útboðshönnun vél – og rafbúnaðar, sem og yfirferð á hönnun verktaka, og mat á umhverfisáhrifum.

Verkefnið í hnotskurn

Staðsetning:

Ísland – Norðurland  

Stærð:

150 MW

Verktími:

1997 – 2011 

 

Heimsmarkmið