Verkefni

Kárahnjúkar

Kárahnjúkar er stærsta einstaka vatnsaflsframkvæmd, sem ráðist hefur verið í á Íslandi.

Virkjað rennsli er 144 rúmmetrar á sekúndu og fallhæð 600 m.

Virkjunin sér álveri Alcoa á Austurlandi fyrir allri þeirri raforku, sem framleiðsla verksmiðjunnar kallar á. Afhendingaröryggi raforku var því lykilatriði við alla hönnun virkjunarinnar.

Verkefnið virkjar vatn tveggja jökuláa.  Sú stærri, Jökulsá á Dal, er stífluð með Kárahjúkastíflu og tveimur lægri hliðarstíflum, og myndast þar með uppistöðulónið Hálslón. Stíflurnar eru grjótfyllingarstíflur. Sú minni, Jökulsá í Fljótsdal, rennur í Ufsarlón.  Ýmsar veitur frá svæðinu austan við Jökulsár í Fljótsdal bæta virkjuðu vatni inn í verkefnið.

Frá Hálslóni og Ufsarlóni er vatni veitt með víðfeðmu samtengdu kerfi aðrennslisganga undir Fljótsdalsheiði að neðanjarðar stöðvarhúsi í fjalllendi Fljótsdals.  Þrjár jarðgangaborvélar (TBM) voru notaðar til að grafa út 90% af 40 km löngum aðrennslisgöngunum.  Aðrennslisgöngin veita vatni í tvær lóðréttar, stálfóðraðar þrýstipípur, sem leiða vatnið til sex Francis véla, sem staðsettar eru í neðanjarðar stöðvarhúsinu. Spennar eru staðsettir í spennihelli við hlið stöðvarhússins. Eins km löng kapalgöng, með 220 kV kapalstrengjum liggja að tengivirki í Fljótsdal.  Frá túrbínunum rennur vatnið út í frárennslisgöng sem opnast út í frárennslisskurð, sem liggur út í Jökulsá í Fljótsdal.

Verkís var þátttakandi í undirbúningi áforma um Kárahnjúkavirkjun frá árinu 1978.   Skýrsla um hagkvæmiathugun virkjunarinnar var gefin út árið 1999 og verkhönnunarskýrsla árið 2000.  Verkís veitti alhliða verkfræðiþjónustu, þar á meðal verkhönnun, hagkvæmniathugun, gerð útboðsgagna, tæknilegar undirbúningsrannsóknir, hönnun byggingamannvirkja, hönnun vél – og rafbúnaðar, yfirferð á hönnun verktaka, mat á umhverfisáhrifum og eftirlit með verkframkvæmdum.

Verkefnið í hnotskurn

Staðsetning:

Ísland – hálendið norðan Vatnajökuls   

Stærð:

690 MW

Verktími:

2003 – 2008