Skipulagsmál

Endurgerð Óðinstorgs

Reykjavík

  • Lýsingarhönnun Óðinstorg

Verkís sér um lýsingarhönnun, hönnun rafmagns, blágrænna ofanvatnslausna og snjóbræðslu. 

Stærðir: 
Verktími: 2014 - 2015, 2019 -

Almennt um verkefnið: 
Árið 2019 voru framkvæmdir við endurgerð torgsins boðnar út en árið 2015 varð tillaga Basalts arkitekta, Verkís og VSÓ verkfræðistofu fyrir valinu í hönnunarsamkeppni. Helsta viðfangsefni keppninnar var að stuðla að breyttri notkun á torginu en þarna hafa bílar verið geymdir í sjötíu ár.

Framkvæmdir á Óðinstorgi felast í endurnýjun yfirborðs á torgsvæði og hluta götu. Komið verður fyrir setpöllum, stökum sætum, leikhólum, pollum og hjólagrindum. Framkvæmdir í Týsgötu fela í sér endurnýjun yfirborðs götu og göngusvæða auk gróðursetningar. Verkið er samstarfsverkefni með Veitum ohf. sem endurnýja fráveitulagnir, hitaveitu, kalt vatn og raflagnir.

Tilgangur blágrænna ofanvatnslausna er að hreinsa afrennsli af götum og lóðum, hægja á rennsli og minnka magn sem fer í fráveitukerfi og umhverfið. Þetta verk, endurgerð Óðinstorgs, er tilraunaverkefni Reykjavíkurborgar og Veitna við innleiðingu á blágrænum ofanvatnslausnum í þéttbýli. Fjarlægður verður hluti af núverandi niðurföllum í Óðinsgötu sem í hefðbundnu fráveitukerfi tækju við öllu afrennsli af götum og gangstéttum og þökum aðliggjandi húsa og veittu því beint í fráveitukerfi. Með blágrænum ofanvatnslausnum verður þess í stað afrennslið meðhöndlað á yfirborði með tveimur gerðum af ofanvatnslausnum: gegndræpri gangstétt og regnbeðum.

Gegndræp gangstétt virkar þannig að á milli hellusteina eru fúgur (6-10 mm) og því töluvert breiðari en í venjulegri hellulögn. Fúgurnar eru fylltar með sérvöldu, fínefnalitlu steinefni sem hleypir vatni auðveldlega í gegnum sig niður í styrktarlag. Með þessum hætti hægir á rennsli vatns og því er hleypt niður í undirliggjandi jarðveg eða inn í jarðvatnslögn í undirlaginu sem er tengd fráveitukerfinu. Regnbeð tekur við afrennsli af götum og þökum nærliggjandi húsa. Þar er vatn leitt í gegnum sérvalið ræktunarlag sem hreinsar mengun og fínagnir úr afrennslinu og hægir á rennsli áður en vatnið hripar ofan í jarðveg undir beðinu eða í svelgi staðsettum í miðju regnbeðsins.

Lýsingarhönnunin, sem spilaði stórt hlutverk sigri tillögunnar, tekur mið af einkenni Reykjavíkur, norðlægustu höfuðborgar Evrópu, þar sem lengd dags og nætur er verulega breytileg. Fjölbreyttir notkunarmöguleikar torgsins bjóða upp á flytja sig milli svæða á torginu eftir því hvar sólar og dagsbirtu gætir. Þá miðar lýsingarlausn tillögunnar að því að gera torgið aðlaðandi og öruggt allan sólarhringinn, allan ársins hring.

Markmiðið er að nota lýsingu til að gera umhverfið leikandi og eru ljósgjafarnir felldir inn í landslag torgsins; steypta bekk, handrið og stalla, sem á þann hátt verða götugögn í sjálfu sér. Frá núverandi götustaurum stafar hlutlaus birta en frá nýjum ljósgjöfum kemur hlýrri birta, sem á þátt í að skerpa andstæður milli umferðar- og dvalarrýmis torgsins. Þá er ljósmengun og orkunotkun haldið í lágmarki með því að nota nákvæma og nútímalega ljóstækni.