Verkefni

Endurgerð Óðinstorgs

Óðinstorg hafði þjónað sínum tilgangi sem bílastæði í miðborg Reykjavíkur í hartnær sjötíu ár áður en hafist var handa við að gjörbreyta því.

Framkvæmdir á Óðinstorgi fólust í endurnýjun yfirborðs á torgsvæði og hluta götu.

Nánar um verkefnið

Komið var fyrir setpöllum, stökum sætum, leikhólum, pollum og hjólagrindum. Framkvæmdir í Týsgötu fólu í sér endurnýjun yfirborðs götu og göngusvæða auk gróðursetningar. 

Blágrænar ofanvatnslausnir hreinsa afrennsli af götum og lóðum, hægja á rennsli og minnka magn sem fer í fráveitukerfi og umhverfið. Endurgerð Óðinstorgs er tilraunaverkefni Reykjavíkurborgar og Veitna við innleiðingu á blágrænum ofanvatnslausnum í þéttbýli. Um tvær gerðir af ofanvatnslausnum er að ræða; gegndræpa gangstétt og regnbeð.

Gegndræp gangstétt virkar þannig að á milli hellusteina eru fúgur, 6 til 10 millimetra og því töluvert breiðari en í venjulegri hellulögn. Fúgurnar eru fylltar með sérvöldu, fínefnalitlu steinefni sem hleypir vatni auðveldlega í gegnum sig niður í styrktarlag. Með þessum hætti hægir á rennsli vatns og því er hleypt niður í undirliggjandi jarðveg eða inn í jarðvatnslögn í undirlaginu sem er tengd fráveitukerfinu. Regnbeð tekur við afrennsli af götum og þökum nærliggjandi húsa. Þar er vatn leitt í gegnum sérvalið ræktunarlag sem hreinsar mengun og fínagnir úr afrennslinu og hægir á rennsli áður en vatnið hripar ofan í jarðveg.

Verkís sá um lýsingarhönnun á Óðinstorgi en markmiðið var að nota lýsingu til að gera umhverfið leikandi og eru ljósgjafarnir felldir inn í landslag torgsins; steypta bekki, handrið og stalla, sem á þann hátt verða götugögn í sjálfu sér. Þá er ljósmengun og orkunotkun haldið í lágmarki með því að nota nákvæma og nútímalega ljóstækni.

Verkefnið var tilnefnt til lýsingarverðlaunanna Darc Awards í febrúar 2021. Það hlaut Íslensku lýsingarverðlaunin 2022 og þar með tilnefningu til Norrænu lýsingarverðlaunanna sama ár.  

Verkefnið í hnotskurn

Staðsetning:

Óðinstorg, Reykjavík

Verktími:

2014 – 2015, 2019 – 2020

 

Heimsmarkmið