Verkefni

Endurheimt votlendis í Úlfarsárdal

Í skýrslu sem Verkís vann fyrir Reykjavíkurborg um verkefnið kemur fram að á umræddu 87 hektara svæði í Úlfarsárdal sé gróft áætlað að endurheimta megi votlendi á um 75% svæðisins.

Nánar um verkefnið

Áætlað er að verkefnið í heild bindi um 400 tonn af kolefni í jörðu sem nemur meðalakstri um 150 bíla á ári. Í sömu skýrslu voru lagðar fram nokkrar leiðir við endurheimt votlendis á svæðinu.

Með því að stífla eða moka ofan í framræsluskurði má endurheimta votlendi sem áður var raskað og í leiðinni byggja upp svæðið sem friðland og útivistarsvæði. Við það að landið blotni aftur upp á nýtt við lokun skurða verða margvíslegar breytingar. Votlendisgróður tekur við af þurrlendisgróðri og samsetning fuglafánunnar breytist, en fuglalíf í Úlfarsárdal er nokkuð fjölbreytt.

Kolefnisbúskapur svæðisins breytist í kjölfar endurheimtar. Þegar votlendi er ræst fram og þurrkað líkt og gert var í Úlfarsárdal, fer það að losa kolefni á formi gróðurhúsalofttegunda en við endurheimt snýst þetta ferli við og binding kolefnis hefst að nýju.

Þegar Reykjavíkurborg hafði ákveðið að fara af stað með endurheimt kom landslagshönnuður hjá Verkís að verkefninu með það að markmiði að svæðið yrði fallegra eftir á, meðal annars með hönnun tjarna. Verkís vann magntöku og útboðsgögn og annaðist eftirlit með framkvæmdinni.

Verkefnið í hnotskurn

Staðsetning:

Úlfarsárdalur, Reykjavík

Stærð:

87 hektarar

Verktími:

2015-

 

Heimsmarkmið