07/07/2022

Áhersla á sjálfbærni í öllu starfi Verkís

Fréttablaðið/Sigtryggur Ari
Ragnar Ómarsson

Verkís leggur mikla áherslu á sjálfbærni í allri sinni mannvirkjagerð og vill vera leiðandi á sviði vistvænnar hönnunar. Þar er hugað að sjálfbærni á mörgum sviðum og sérstakt tól notað til að hjálpa við að styðja heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna við mannvirkjagerð.

Afmælisblað Verkís kom út fimmtudaginn 12. maí sl. og er viðtalið úr blaðinu. Hér er hægt að lesa blaðið í heild sinni.

„Verkís leggur áherslu á og stuðlar að sjálfbærni mannvirkja með ýmsu móti og við ætlum okkur að vera besti kosturinn fyrir samfélagið þegar kemur að ábyrgum starfsháttum, sjálfbærni og nýsköpun í mannvirkjagerð,“ segir Ragnar Ómarsson, byggingafræðingur og sérfræðingur í sjálfbærni mannvirkja hjá Verkís.

„Með ábyrgum starfsháttum leggjum við áherslu á að fólk fái örugglega þá þjónustu sem óskað er eftir þegar það leitar til okkar og að við vinnum með samfélagsleg markmið í huga,“ segir Ragnar. „Þegar kemur að sjálfbærni höfum við svo þá stefnu að fyrirtækið sé leiðandi á sviði vistvænnar hönnunar, en mannvirkjagerð hefur mikil áhrif á umhverfið. Þetta er mjög víðtæk og metnaðarfull framtíðarsýn hjá félaginu og þessu fylgir kennsla fyrir starfsfólk til að nýta hugmyndafræði sjálfbærni í sínum störfum. Við höfum líka bætt við siðareglur fyrirtækisins og þar er nú farið fram á að starfsfólk miðli þekkingu og leiti lausna með sjálfbæra þróun að leiðarljósi,“ útskýrir Ragnar.

Sjálfbærni er margþætt

„Þegar við tölum um sjálfbærni erum við að tala um samfélag, efnahag og umhverfi. Vistvæn hönnun snýr að umhverfinu, en hinir þættirnir skipta líka miklu máli,“ segir Ragnar. „Samfélagsþátturinn í okkar starfi kemur mikið inn á að skapa rétta umhverfið í mannvirkjum, til dæmis vinnuumhverfi sem stuðlar að bættu öryggi og heilsu fólks. Arkitektar hanna mikið út frá samfélagslegum áherslum og við sem verkfræðistofa styðjum við tæknilega þætti sem snúa að þeim, svo sem góða innivist og góð hljóð-, ljós- og loftgæði. Þegar kemur að efnahagslega þættinum erum við svo að reikna út kostnað við að byggja mannvirki og reka þau allan líftíma þeirra,“ segir Ragnar.

Hægt að styðja sjálfbærni í mannvirkjagerð

„Sameinuðu þjóðirnar hafa skilgreint hugtakið sjálfbær þróun og sett fram heimsmarkmið sem stuðla að henni,“ segir Ragnar. „Markmiðin eru þess eðils að það er hægt að tileinka sér þau í mannvirkjagerð til að stuðla að aukinni sjálfbærni í heiminum öllum. Þetta skiptir alla máli. Almenningur er helsti notandi mannvirkja og mannvirkjagerð snýst um að veita fólki og athöfnum þeirra öruggt skjól. Þar sem notandinn er alltaf mælistikan á það sem við gerum er rödd almennings afar mikilvæg í þessu sambandi, það þarf að hlusta og taka tillit til hennar,“ segir Ragnar. „Svo koma önnur sjónarmið inn í myndina þegar kemur að sveitarfélögum og ríki, en þessir aðilar hafa það hlutverk að stuðla að hagkvæmni, vernda umhverfið og hlúa vel að samfélaginu. Þessir fulltrúar fólksins eiga að stuðla að aukinni sjálfbærni á þann hátt.“

Hægt að velja hvaða heimsmarkmið eru studd

Verkís hefur búið til hið svokallaða Verkíshjól, sem gerir viðskiptavinum kleift að velja hvaða heimsmarkmið þeir vilja leggja áherslu á í hönnun mannvirkja. „Það eru tíu heimsmarkmið sem passa sérstaklega við mannvirkjagerð. Þegar verkefnaóskir koma til okkar metum við hvaða heimsmarkmiðum verkið stuðlar að í sjálfur sér og hvaða heimsmarkmið geta átt við um verkefnið,“ segir Ragnar.

„Ef sveitarfélag óskar til dæmis eftir að við komum að hönnun á skóla þá er það að byggja skóla eitthvað sem stuðlar að heimsmarkmiðum í sjálfu sér. En önnur markmið geta líka átt við og þá verður þetta spurning um hvernig skóla á að byggja. Þetta tól greinir hvernig verkefnið getur fallið undir heimsmarkmið og svo getum við boðið viðskiptavinum að nýta sér þetta og setja þessi markmið í verkefnin. Þetta hjálpar ráðgjöfum að veita hnitmiðaðri og traustari ráðgjöf, því þeir vita betur hvaða ráðgjöf þeir eiga að veita,“ segir Ragnar.

„Viðskiptavinir geta líka borið afraksturinn saman við markmiðin sem voru sett. Þannig treystir þetta sambandið milli okkar og viðskiptavina. Ég hef starfað við ráðgjöf með sjálfbærni að leiðarljósi í sjö, átta ár og mín reynsla er sú að þegar þetta er sett sem leiðarljós tryggir það betri niðurstöðu, meiri gæði í mannvirkjum og að viðskiptavinir séu líklegri til að vera ánægðir með það sem þeir fá,“ segir Ragnar að lokum.

Heimsmarkmið

Fréttablaðið/Sigtryggur Ari
Ragnar Ómarsson