07/07/2022

Stöðnun má ekki vera í boði

Fréttablaðið/Sigtryggur Ari
Agnes Hólm Gunnarsdóttir, gæðastjóri Verkís

Stöðugar umbætur eru nauðsynlegar fyrir alla sem vilja lifa af í samkeppni og búa til eftirsóknarverða vinnustaði, segir Agnes Hólm Gunnarsdóttir, gæðastjóri Verkís. Hún segir umbætur í grundvallaratriðum fjalla um að gera betur í dag en í gær, og enn betur á morgun en í dag.

Afmælisblað Verkís kom út fimmtudaginn 12. maí sl. og er viðtalið úr blaðinu. Hér er hægt að lesa blaðið í heild sinni.

„Til að ná árangri í umbótastarfi er nauðsynlegt að hafa bæði skýra sýn á hvað skiptir raunverulegu máli og vera stöðugt vakandi fyrir ytri og innri þróun og breytingum sem ætti að hafa áhrif á þessa sýn. Einnig þarf að spá í hvaða markmið skipta máli fyrir árangur og hvaða mælikvarðar útskýra stöðuna og þróun árangurs í heild sinni.“ Verkís er með vottað stjórnkerfi í samræmi við ISO9001 (gæði), ISO45001 (heilbrigði og öryggi), ISO14001 (umhverfi) og ÍST85 (jafnlaun).

„Staðlarnir hjálpa okkur að þróast stöðugt í takt við innlend og alþjóðleg viðmið og tryggja að við viðhöldum vissum lágmarkskröfum um ábyrga og faglega stjórnun með árangur að leiðarljósi. Einnig er mikið lagt upp úr þátttöku starfsfólks í þróunarstarfi en hjá fyrirtækinu eru starfandi fimmtán fagþróunarhópar sem sinna umbótum, fagþróun og fræðslu fyrir mismunandi málefni. Sem dæmi má nefna að sérstakur hópur er starfandi fyrir sjálfbærni og einnig fyrir öryggi og almannavarnir,“ greinir Agnes frá.

Markmið

Hjá Verkís eru reglulega sett markmið út frá sjónarhorni við skiptavina, starfsfólks, eigenda og samfélaga sem starfað er í. „Samfélagsábyrgð með sjálfbærni að leiðarljósi hefur birst í starfsemi Verkís frá upphafi, þar sem undanfarar hafa tekið stóran og virkan þátt í sjálfbærri þróun og innviðauppbyggingu íslensks samfélags síðastliðin 90 ár,“ upplýsir Agnes. Í maí 2018 skrifaði Verkís undir UN Global Compact og fylgir eftir skuldbindingunni með árlegri skýrslugerð. „Einnig setjum við okkur markmið í tengslum við 17 heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun. Starfsemi Verkís er í tengslum við flest heimsmarkmiðanna en fyrirtækið styður markvisst við þrjú þessara markmiða sem tengjast stefnuáherslum og starfsemi fyrirtækisins á beinan hátt,“ útskýrir Agnes.

Markmið 5 – Jafnrétti kynjanna Frá upphafi hefur Verkís lagt ríka áherslu á jafnréttismál. Árið 2012 var Verkís fyrst íslenskra fyrirtækja til að hljóta gullmerki PwC eftir jafnlaunaúttekt og hlaut það aftur árið 2018. Árið 2018 var Verkís fyrsta verkfræðistofan á Íslandi til að fá jafnlaunavottun Jafnréttisstofu.

Markmið 7 – Sjálfbær orka Hjá Verkís starfa helstu sérfræðingar landsins í sjálfbærri orkunýtingu sem hafa komið að hönnun fjölmargra orkumannvirkja. Í samvinnu við atvinnulífið tekur Verkís þátt í að miðla þekkingu um jarðvarma- og vatnsorku og hitaveitu jafnt innanlands sem á erlendri grund.

Markmið 11 – Sjálfbærar borgir og samfélög Hjá Verkís er veitt ráðgjöf með vistvænum áherslum og er þá horft til þriggja þátta, vistvænnar hönnunar, lífferilsgreininga og samfélagsgreininga. Vistvænar áherslur vega á móti umhverfisáhrifum mannvirkis á líftíma þess auk þess að draga úr kolefnisfótspori, fjárhagslegri sóun og viðhalda öryggi og þægindum notenda án þess að það bitni á umhverfi eða fjárhag. Í samstarfi við viðskiptavini greinum við einnig hvaða heimsmarkmið geta átt við ráðgjafarverkefnin sem við vinnum fyrir þá og leggjum til lausnir með sjálfbærni að leiðarljósi.

Heimsfaraldur og framtíðin í stjórnun

Heimsfaraldurinn hefur haft töluverð áhrif á starfsemi Verkís, líkt og annars staðar. „Í faraldrinum flykktist starfsfólk heim að vinna og lífið í fundarherbergjum og kaffihornum datt niður tímabundið. Verkís býður nú starfsfólki upp á fjarvinnusamning en það er svo sannarlega gleðilegt að geta aftur séð framan í fólk í raunheimum og eiga persónulegri samskipti,“ segir Agnes. Hún bætir við að það sem kom kannski mest á óvart á Covid-tímum var að ekki varð marktækur munur á ánægju, hvorki viðskiptavina né starfsfólks.

„Samkvæmt þjónustukönnun voru viðskiptavinir meira að segja aðeins ánægðari með þjónustuna fyrsta Covid-árið! Það er athyglisvert að hægt sé að vinna flókin og margslungin verkefni í mismunandi heimshornum án þess að það komi niður á gæðum. Hefðbundnar stjórnkerfisúttektir urðu einnig rafrænar og það vakti nokkra kátínu þegar úttektarmanni á vegum BSI tókst að gera öryggis- og gæðaúttekt við virkt eldfjall á Íslandi frá skrifborðinu sínu í Níkaragva,“ segir Agnes og hlær. Ein af áskorunum fram undan sé einmitt að viðhalda þessu verklagi til að viðhalda lækkun á kolefnisspori sem varð vegna fjarfunda og fækkunar flug- og ökuferða.

„Það er mikil fjárhagsleg og umhverfisleg sóun að fara tvær til fjórar flugferðir til þess eins að skreppa á fund í Noregi sem er jafnvel hægt að gera rafrænt. Auknir möguleikar á fjarvinnu og og „global trend“ líkt og Gig Economy tryggja einnig að stjórnendur verða áfram að vera á tánum til að tryggja sveigjanleika og eftirsóknarvert starfsumhverfi þar sem fólki líður vel,“ segir Agnes og bætir við: „Ef markmiðið er framúrskarandi þjónusta, eftirsóknarverður vinnustaður og samfélagsábyrgð til fyrirmyndar eru tækifærin endalaus. Stöðnun má ekki vera í boði.“

Heimsmarkmið

Fréttablaðið/Sigtryggur Ari
Agnes Hólm Gunnarsdóttir, gæðastjóri Verkís