12/07/2021

Framvinda varnargarða ofan Nátthaga

Framvinda varnargarða ofan Nátthaga

Svarmi, dótturfélag Verkís, setti saman myndband sem sýnir framvindu hraunrennslis við varnargarða syðst í Meradölum dagana 18. maí til 2. júní sl.

Tilgangur garðanna var að tefja framrás hraunrennslis niður í Nátthaga en þaðan er stutt niður að Suðurstrandaveg. Lægðirnar sem stíflurnar voru reistar í voru áður með lágmarkshæðirnar 201,7 m y.s. (sú eystri) og 203,4 m y.s. (sú vestari). Fyrri hluti framkvæmdanna miðaði við að hækka landhæð í lægðunum upp í um 205 m y.s. með stíflugerð. Seinni hlutinn fólst í að hækka enn frekar og enduðu garðarnir á bilinu 208 til 209 m y.s. Hæð þeirra varð því mest um 7 m.

https://www.youtube.com/watch?v=LT-TdvMMLeI

Án garðanna hefði hraun líklega tekið að renna niður í Nátthaga þann 19. maí en ekki 22. maí. Töfin varð ekki ýkja mikil og helgast af því að hraunflæðið skipti um gír í kringum 19. maí. Þá tóku þunnfljótandi hrauntaumar að brjótast undan áður seigskríðandi hraunjaðri. Í upphafi framkvæmdanna hækkaði hraunjaðarinn nokkra metra upp fyrir efstu hæð neyðarruðninga sem gerðir voru til varnar vinnusvæðinu. Búist var við sambærilegu ferli við stíflurnar, þ.e. að hraunjaðarinn myndi staflast upp og ná töluverðri umframhæð yfir hæsta hluta stíflanna og þannig halda aftur af hraunrennsli niður í Nátthaga í lengri tíma en raunin varð.

Við þær breytingar sem urðu á hrauninu sem rann að stíflunum, þ.e. breyttist í þunnfljótandi hraun, varð tíminn hins vegar mjög stuttur þar sem þunnfljótandi hraun þarf einungis að vaxa nokkra cm yfir brún stíflu áður en það rennur yfir.

Í myndbandinu má sjá þessa breytingu með því að taka eftir litamuninum á hrauninu við stíflurnar. Eldra hraunið er dekkra á litinn og óx það vel yfir neyðarruðningana án þess að fara yfir þá. Þunnfljótandi hraunið er ljósara að lit og með mun sléttara yfirborð. Myndirnar hér að neðan sýna einnig muninn á þessum hraunjöðrum, þ.e. seigskríðandi þykkur jaðar og þunnfljótandi lágur jaðar.

14. maí 2021
1. júní 2021

Umfjöllun mbl.is : Notuðu þrívíddarlíkan við byggingu varnargarðanna

Heimsmarkmið

Framvinda varnargarða ofan Nátthaga