30/11/2022

Kenna námskeið um skipulagsmál

Erla Bryndís og Gunnar Páll kenna námskeið um skipulagsmál.

Erla Bryndís Kristjánsdóttir, landslagsarkitekt og Gunnar Páll Eydal, umhverfis- og auðlindafræðingur, sem bæði koma að skipulagsráðgjöf hjá Verkís, munu kenna námskeiðið Skipulagsmál – leiðsögn fyrir sveitarstjórnarfólk og aðra áhugasama hjá Endurmenntun Háskóla Íslands 7. febrúar nk.

Skipulagsmál eru spennandi og mikilvæg en um leið krefjandi og jafnvel flókin. Í skipulagi er sett stefna um fyrirkomulag byggðar og mótun umhverfis og þar er landi ráðstafað fyrir mismunandi nýtingu. Teknar eru ákvarðanir og ákvæði sett um hönnun hins byggða umhverfis. Sveitarfélögum ber skylda til að taka faglegar og gagnsæjar skipulagsákvarðanir með aðkomu íbúa og hagaðila.

Á námskeiðinu verður farið yfir tilgang og markmið skipulagsgerðar, helstu hugtök í skipulagi, mismunandi gerðir skipulags og skipulagsferlið. Fjallað verður um áhrif skipulags á umhverfi og samfélag og aðkomu íbúa og annarra aðila að skipulagsgerðinni. Jafnframt er fjallað um ýmis tæki og tól sem notuð eru við skipulagsgerð.

Þekking á skipulagsmálum er mikilvæg. Sveitarfélög vilja nýta landið vel og það er gott að fá innlegg frá íbúum. Með aukinni þekkingu á skipulagsmálum verður sveitarstjórnarfólk, sem og aðrir íbúar, betur í stakk búið til að byggja upp samfélög.

Námskeiðið fer fram þriðjudaginn 7. febrúar 2023 frá kl. 16.30 – 18.30. Það fer fram í rauntíma í gegnum forritið Zoom. Hér má lesa nánar um námskeiðið: Skipulagsmál (endurmenntun.is)

Heimsmarkmið

Erla Bryndís og Gunnar Páll kenna námskeið um skipulagsmál.