24/09/2019

Leggja hönd á plóg við nútímavæðingu skipaflotans

Viðtal um þjónustu Verkís í stjórnbúnaði fyrir sjávarútveg
Viðtal um þjónustu Verkís í stjórnbúnaði fyrir sjávarútveg

Í nýjasta tölublaði sjávarútvegstímaritsins Ægis, er viðtal við Þórólf Kristjánsson, rafmagnstæknifræðing hjá Verkís. Blaðið er tileinkað sjávarútvegssýningunni Iceland Fishing Expo 2019 sem hefst 25. september 2019.

„Á síðustu árum hefur þróun innan sjávarútvegsins verið hröð. Tækniframkvæmdir hafa leitt af sér öruggara starfsumhverfi og betri nýtingu á verðmætustu auðlind Íslendinga. Verkís hefur tekið að sér fjölmörg verkefni innan sjávarútvegsins sem snúa að stjórnbúnaði og felast mörg þeirra í nútímavæðingu skipaflotans. Þjónusta okkar á þessu sviði er meðal annars forritun, hönnun, ráðgjöf og gerð rafmagnsteikninga,“ segir Þórólfur Kristjánsson, rafmagnstæknifræðingur hjá Verkís verkfræðistofu, í samtali við Ægi.

Sjálfvirkar stýringar fyrir rafstöðvar

Síðustu ár hefur Verkís meðal annars séð um stór sjálfvirkniverkefni í fiskiskipum og landvinnslu ásamt því að forrita sjálfvirkar stýringar fyrir rafstöðvar. Hingað til hefur áhugi fyrir síðarnefndu þjónustunni aðallega komið frá viðskiptavinum á landi en Þórólfur segist hafa fundið fyrir auknum áhuga frá sjávarútveginum að undanförnu.

„Á landi eru rafstöðvar aðallega notaðar til að bregðast við ef rafmagni slær út, á stöðum þar sem það getur valdið tjóni eða stofnað heilsu og lífi fólks í hættu. Stýringin skynjar þegar rafmagnið fer af, grípur inn í og ræsir rafstöðina til að útvega vararafmagn. Því næst heldur stýringin réttum snúningshraða á vélinni á meðan hún þarf að vera í gangi, líkt og sjálfskiptingin velur heppilegan gír í akstri eftir því hvort ekið er upp eða niður brekku,“ útskýrir Þórólfur.

Á sjó eru rafstöðvar aftur á móti alltaf í gangi, sjá til þess að orkuskilyrðum sé fullnægt og streymi orku um skipið sé viðhaldið. „Þannig sjá stýringarnar til þess að vélin haldist á réttum hraða. Jafnvel þó að hlutverk rafstöðvanna sé mismunandi eftir því hvort þær eru á landi eða sjó er búnaðurinn og hönnun við stýringarnar ekki svo ólík,“ bætir Þórólfur við.

Gott aðgengi við þekkingu

„Þegar við höfum lokið við að hanna og forrita stýringar í rafstöðvar viljum við helst að viðskiptavinurinn þurfi ekki meira á okkur að halda, því það þýðir að allt virkar sem skildi. En eins og við vitum öll getur alltaf eitthvað komið upp á. Þá viljum við geta brugðist hratt og örugglega við og útvegað góðar og skilvirkar lausnir,“ segir Þórólfur.

Hann segir að Verkís státi af breiðri þekkingu og reynslu. „Hjá Verkís eru sterkir rafbúnaðarhópar og meðal annars fyrrverandi vélstjórar til margra ára á fiskiskipum sem geta aðstoðað við úttekt á vélbúnaði, innkaup og fleira. Við erum líka dugleg að afla okkur meiri og dýpri þekkingu,“ segir Þórólfur.

Þegar viðskiptavinir leita til Verkís vegna ráðgjafar og hönnunar stýringa fyrir rafstöðvar, á landi eða sjó, mæla sérfræðingar fyrirtækisins með lausn og búnaði sem hentar fyrir hana. Sérfræðingar Verkís hafa forritað búnað frá ýmsum framleiðendum en mæla oftast með búnaði frá DEIF sem er hannaður og framleiddur í Skive í Danmörku.

Til að mæta eftirspurn eftir þjónustu hafa sérfræðingar Verkís því aflað sér aukinnar þekkingar á búnaði DEIF, meðal annars með því að sækja námskeið í höfuðstöðvum fyrirtækisins í Danmörku. Þá hefur starfsfólk DEIF einnig komið til Íslands og haldið námskeið hjá Verkís. Þórólfur segir að hann og aðrir sérfræðingar hjá Verkís hafi lagt sig fram við að koma á beinum tengslum við sérfræðinga hjá DEIF og það hafi komið sér vel fyrir viðskiptavini verkfræðistofunnar.

„Tækninni fleygir sífellt fram og það er bæði spennandi og krefjandi. Við fylgjumst grannt með nýjungum í stjórnbúnaði og hlökkum til framtíðarinnar,“ segir Þórólfur að lokum.

Verkís verður með bás á svæði A-7 á sjávarútvegssýningunni Iceland Fishing Expo 2019 sem hefst á miðvikudaginn og stendur yfir fram á föstudag.

Þjónusta Verkís á sviði sjávarútvegs

Viðtal um þjónustu Verkís í stjórnbúnaði fyrir sjávarútveg
Viðtal um þjónustu Verkís í stjórnbúnaði fyrir sjávarútveg