07/04/2020

Margir álitlegir virkjanakostir á Vestfjörðum

Síðustu ár hafa margir landeigendur hér á landi velt fyrir sér hvort mögulegt og hagkvæmt sé að virkja ár og læki á jörðum þeirra. Sumir vilja tryggja að þeir hafi rafmagn ef raforkukerfið gefur sig, aðrir vilja lækka rafmagnsreikninginn og þá vilja einhverjir afla sér tekna með því að selja rafmagn inn á kerfið. 

Jafnvel þó að á eða lækur sé til staðar er misjafnt hversu hagkvæmt er fyrir landeiganda að virkja rennslið.

Niðurstöður frumúttektar Verkís ætlar Vestfjarðastofa að nota til að greina hvort þörf sé á að stofna smávirkjanasjóð sem hefði það að markmiði að styðja við fyrstu skref í rannsóknum og auka möguleika á litlum virkjunum á Vestfjörðum.

Tillögur að 68 mögulegum virkjanakostum voru fundnar með kerfisbundinni yfirferð loftmynda, korta og landlíkana. Fyrir alla kostina var stærð vatnasviðs, mögulegt stíflustæði, lega vatnsvega, staðsetning stöðvarhúss og uppsett afl ákvörðuð, ásamt stofnkostnaði. Áætluð orkuframleiðsla gerði síðan mögulegt að meta hlutfallslega hagkvæmni hvers kosts.

Af þeim 68 kostum sem skoðaðir voru teljast 18 hagkvæmir og 15 mögulega hagkvæmir. Áhrif á umhverfi voru ekki metin og möguleikar á miðlunum og tengingum við flutnings- eða dreifikerfi er undanskilið í hagkvæmnimati. Það er niðurstaða skýrsluhöfunda að það sé þess virði að kanna nánar hagkvæmni margra þessara virkjanakosta. Stofnun smávirkjanasjóðs væri jákvætt skref í þeirri þróun.

Skýrsla Verkís: Smávirkjanir á Vestfjörðum – frumathuganir kosta

Ljósmynd/Mjólkárvirkjun, smávirkjun á Vestfjörðum

Um þjónustu Verkís á sviði smávirkjana
Frétt Verkís: Verkís gerir heildstæða úttekt á smávirkjanakostum á Vestfjörðum

Mjólkárvirkjun smávirkjun
92642697_1065171490523337_528244865322975232_n