24/03/2022

Níutíu ára reynsla af stórframkvæmdum

Egill Viðarsson Framkvæmdastjóri Verkís
Egill Viðarsson Framkvæmdastjóri Verkís

Verkís veitir ráðgjöf og alhliða þjónustu á öllum sviðum verkfræði og skyldum greinum og hefur tekið þátt í flestum stórframkvæmdum hér á landi. Fyrirtækið fagnar nú 90 ára stórafmæli og ætlar að halda upp á það með ýmsum hætti, meðal annars með spennandi bás á Verk og vit. Viðtal við Egil Viðarsson, framkvæmdastjóra Verkís, í tilefni af sýningunni Verk og vit. Viðtalið birtist í sérblaði Fréttablaðsins.

„Verkís heldur upp á 90 ára afmæli sitt í ár, en það eru nú liðin 90 ár síðan Sigurður Thoroddsen stofnaði verkfræðistofu í Reykjavík og miðast aldur Verkís við þann atburð,“ segir Egill Viðarsson, framkvæmdastjóri Verkís. „Verkís veitir ráðgjöf og alhliða þjónustu á öllum sviðum verkfræði og skyldum greinum og í flestum stórframkvæmdum hér innanlands hefur sérfræðiþekking Verkís komið við sögu. Okkar hugsjón og markmið er að byggja upp samfélög en við höfum meðal annars komið að gerð íþróttamannvirkja, menntastofnana, heilbrigðisstofnana, vatnsafls- og jarðvarmavirkjana og samgönguinnviðum á borð við brýr, vegi, flugvelli og hafnir.

Það sem gefur Verkís sérstöðu er sú áratuga reynsla sem býr innan veggja stofunnar og sá fjöldi verkefna sem við höfum unnið að, bæði innanlands og erlendis,“ segir Egill. „Við komum að verkefnum frá fyrsta stigi til lokastigs framkvæmda og höfum sinnt orkumálum, iðnaði og innviðum eins og Landsneti, Veitum og öðru sem heldur samfélaginu gangandi í miklum mæli.“

Þeistareykjavirkjun
Þeistareykjavirkjun

Fjölbreytni tryggir alhliða úrlausnir

„Þjónustuframboð Verkís nær til flest allra, bæði stórum sem smáum viðskiptavinum, þó að undanfarið hafi stærri verkefni aukist í verkefnasafni stofunnar. Sá fjöldi sérfræðinga sem við höfum innan okkar raða gerir það að verkum að viðskiptavinir geta fengið heildstæða úrlausn sinna mála hjá einu fyrirtæki. Verkís hefur mikla og fjölbreytta reynslu og kunnáttu,“ segir Egill. „Hér starfa ekki bara verkfræðingar og tæknifræðingar, heldur líka náttúrufræðingar, jarðfræðingar, viðskiptafræðingar, fiskifræðingar, vistfræðingar og svo framvegis. Þetta er fjölbreyttari hópur en margir átta sig á.“

Vilja vera sýnileg á afmælisárinu

„Við stefnum á að vera sýnileg á öllu landinu þetta árið, enda erum við svo heppin að vera með starfsstöðvar víða um landið. Hátíðin er þegar hafin og við stefnum á að halda að minnsta kosti fjóra morgunverðarfundi í höfuðstöðvum okkar í Ofanleiti. Áherslan á þessum fundum verða samfélagslega tengd málefni sem allir hafa gaman af því að kynnast,“ segir Egill. „Við héldum okkar fyrsta fund núna í mars, þar sem fjallað var um skipulag og náttúruvá á lágsvæðum. Þar fengum við gestafyrirlesara og okkar eigin sérfræðinga til að fjalla um þetta málefni. Næsti fundur verður svo með áherslu á íþróttamannvirki, svo eitthvað sé nefnt.

Við erum líka að bjóða til veglegra nemendaheimsókna til okkar en það er okkur mikilvægt að vera í góðu sambandi við helstu menntastofnanir og skapa tengsl við þá nema sem koma til með að taka við keflinu í atvinnulífinu. Við höfum ráðið til okkar sumarstarfsfólk á hverju sumri og ráðum síðan til okkar starfsfólk sem er nýútskrifað úr háskóla í framtíðarstörf,“ segir Egill. „Svo verður vegleg afmælishátíð í Perlunni í maí og þá fögnum við afmælinu með starfsfólki og viðskiptavinum. Svo er annað sem kemur fram þegar líður á árið.“

Keflavíkurflugvöllur
Keflavíkurflugvöllur

Fjölmörg spennandi verkefni í vinnslu

Verkís hefur tekið að sér gríðarlegan fjölda af mjög fjölbreyttum verkefnum sem fyrirtækið hefur unnið að og mun sinna á næstunni.

„Helstu verkefnin okkar í dag snúa að endurnýtanlegri orku, samgöngumannvirkjum og ýmsum innviðaverkefnum,“ segir Egill. „Þau helstu eru stækkun og endurnýjun á jarðvarmavirkjunum á Reykjanesi, bæði Svartsengi og Reykjanesvirkjun, stækkun flugstöðvarinnar í Keflavík, nýjar og endurbættar akstursbrautir á Keflavíkurflugvelli, stækkun steypuskála Norðuráls, endurnýjun á dreifikerfi Veitna, hönnun síðasta áfanga Arnarnesvegar, vatnsaflsvirkjanir í Georgíu, flutningsverkefni fyrir Landsnet, ýmis verkefni fyrir Vegagerðina, nýr skóli í Nuuk á Grænlandi, ný sundhöll í Bodø í Noregi og stækkanir og endurbætum á skólum, leikskólum, heilbrigðisstofnunum og íþróttamannvirkjum um allt land, ásamt ýmsum öðrum samfélagslega áhugaverðum verkefnum. Þetta er eiginlega bara endalaus upptalning, en þetta er svona það allra helsta.

Framundan eru svo verkefni sem snúa almennt að orkuskiptum framtíðarinnar, endurnýjanlegri orku og loftslags- og umhverfismálum, áframhaldandi endurnýjun veitukerfa og framkvæmdir á Keflavíkurflugvelli,“ segir Egill. „ Svo eru alls konar vistvottanir varðandi sjálfbærni orðnar mjög stórar þegar til framtíðar er litið, svo eitthvað sé nefnt.“

Grunnskóli í Nuuk á Grænlandi
Grunnskóli í Nuuk á Grænlandi

Mikið um dýrðir á Verk og vit

„Verkís tekur þátt í Verk og vit, en sýningin er að okkar mati mikilvægur vettvangur til að kynna þjónustuframboðið og segja frá því sem við höfum upp á að bjóða, ásamt því að styrkja viðskiptasambönd og afla nýrra,“ segir Egill. „Við viljum líka vera sjáanleg og kynna Verkís. Okkur finnst Verk og vit vera vettvangurinn sem hentar Verkís best til þess.

Í ár erum við í afmælisskapi og lítum björtum augum til framtíðar. Básinn okkar verður undirlagður af því að halda upp á stórafmælið og við ætlum að frumsýna afmælismyndband um söguna okkar,“ segir Egill. „Starfsfólk okkar verður líka á staðnum til að svara spurningum áhugasamra og taka á móti gestum og viðskiptavinum sem sækja sýninguna. Við ætlum líka að sýna sýndarveruleika sem við notum í hönnunarvinnu, en slíkri tækni hefur fleygt fram að undanförnu, virkar mjög vel og margir af okkar helstu viðskiptavinum vilja í auknum mæli nýta sér þessa tækni. Hún gerir það að verkum að hönnuðir og viðskiptavinir geta gengið um og skoðað mannvirkin þegar þau eru í hönnun og svo í lokin þegar hönnun á þeim er lokið áður en þau eru reistar. Þetta er í raun eins og hönnunarsýning í sýndarveruleika.

Út frá þessari tækni hefur svo ýmis önnur tækni þróast, eins og sjálfvirkni í hönnun þegar verið er að endurtaka sama hlutinn, þá er hægt að teikna hann upp einu sinni og láta svo hugbúnað endurtaka hönnunina eins og oft og þarf,“ segir Egill. „Það eru því ýmsar spennandi tækninýjungar að ryðja sér til rúms á þessu sviði og við viljum að sjálfsögðu taka þátt og þróa okkar aðferðir.

Sjón er sögu ríkari og ég hvet alla til að mæta og sjá það sem fer fram á Verk og vit, þar verður mikið að sjá í alls konar flottum básum. Við hlökkum til að sjá sem flesta, enda held ég allir séu orðnir langeygir eftir persónulegum samskiptum eftir tvö ár þar sem þau hafa verið að mestu rafræn. Við erum búin að bjóða mjög mörgum og hlökkum til að sjá sem flesta og vonum að þetta heppnist vel,“ segir Egill að lokum.

Heimsmarkmið

Egill Viðarsson Framkvæmdastjóri Verkís
Egill Viðarsson Framkvæmdastjóri Verkís