Nýr steypuskáli Norðuráls
Nýr steypuskáli Norðuráls. Um þessar mundir vinnur Verkís að spennandi verkefni við nýjan steypuskála Norðuráls á Grundartanga. Skálinn mun hýsa nýja framleiðslulínu fyrirtækisins þar sem meðal annars verða framleiddar álstangir (e. Billet) sem eru eftirsóttar af evrópskum viðskiptavinum.
Framkvæmdir við skálann eru þegar hafnar. Gert er ráð fyrir að uppsetningu búnaðar verði lokið um mitt ár 2023 og að rekstur hefjist að loknum prófunum í upphafi árs 2024. Um er að ræða fjárfestingu upp á 16 milljarða króna.
Á heimasíðu Norðuráls segir að nýja línan muni auka verðmæti framleiðslunnar. Með verkefninu er verið að færa virðisaukandi framleiðslu til Íslands, sem hingað til hefur farið fram erlendis. Með því að nota endurnýjanlega orku verður kolefnisspor framleiðslunnar mun minna en ef hún færi fram erlendis.
Stangirnar eru sívalningar úr áli sem eru eftirsóttar hjá evrópskum viðskiptavinum. Ál er lykilefni við framleiðslu t.d. rafbíla, sólarrafhlaða, flugvéla og umhverfisvænna bygginga. Í nýja skálanum verður hægt að framleiða fimm mismunandi þvermál af stöngum.
Verkís notar skýþjónustuna BIM 360 við hönnun byggingarinnar, uppsetningu búnaðar og til að miðla upplýsingum milli hönnuða, Norðuráls og búnaðarframleiðenda. Öll rýni og samþykktarferli fara í gegnum svæðið, sem og samskipti við framleiðendur búnaðar. Þetta er eitt umfangsmesta verkefni sem Verkís hefur unnið í hugbúnaðinum til þessa.
Verkís hefur unnið sem ráðgjafi við öll álver á Íslandi.
Um verkefnið á heimasíðu Norðuráls