29/03/2023

Ræddi snjóflóðin í Neskaupstað á Rás 1 

Ræddi snjóflóðin í Neskaupstað á Rás 1
Myndin er tekin í Neskaupstað í gær, þriðjudaginn 28. mars.

Ræddi snjóflóðin í Neskaupstað á Rás 1. Kristín Martha Hákonardóttir, snjóflóðaverkfræðingur hjá Verkís, ræddi við Guðrúnu Hálfdánardóttir á Morgunvaktinni á Rás 1 í morgun. Hún er stödd fyrir austan þar sem hún skoðar ummerki eftir snjóflóðin sem féllu þar á mánudag. Verkís hefur lokið snjótæknilegri hönnun varnargarða í Neskaupstað og er undirbúningur vegna framkvæmda við síðasta hluta ofanflóðavarnargarða fyrir ofan byggðina í Neskaupstað langt kominn.

Aðspurð sagði Kristín Martha stöðuna býsna góða í Neskaupstað. „Ég er persónulega skekin eftir að hafa séð hvernig húsin voru útleikin sem lentu í flóðinu og hversu rosalega litlu mátti muna að miklu verr hefði farið. Þannig að hugur minn er hjá fólkinu sem lenti í flóðinu og Norðfirðingum sem eru alltaf mjög yfirvegaðir. Og svo hjá þeim sem hafa þurft að rýma á Seyðisfirði og Eskifirði.“

Kristín Martha sagði að flóðin sem féllu á mánudag væru allt öðruvísi en stóru flóðin sem féllu í Neskaupstað árið 1974.

„Það sem er svo merkilegt við þessi flóð sem lenda á varnarmannvirkjunum og húsunum er að þetta er sáralítill snjór. Þetta er sami iðufaldur og fer yfir snjóflóðavarnagarðinn á Flateyri 2020 og skemmdi líklega skíðaskálann á Siglufirði í fyrra og sambærilegur iðualdur skemmdi hús innar í Norðfirði 1999,“ útskýrði Kristín Martha.

Stærsta flóðið sem áður hefur fallið úr Nesgili (árið 1974), ofan við húsin sem lentu í flóðinu núna, stoppaði 200 metrum fyrir ofan húsið og rúmmálið í því flóði var metið 300 þúsund rúmmetrar en talið er að flóðið sem féll á mánudag og náði um það bil 200 metrum lengra sé um tífalt minna að rúmmáli. Kristín Martha segir ástæðuna fyrir því að þetta hafi gerst núna sé sú að það sé mjög mikið af ísköldum snjó, alveg frá upptakasvæðinu og út í sjó. Þannig myndist líklega einhverskonar hvirflalest af ísköldum snjó sem lendir af svakalegum krafti á mannvirkjunum.

Ræddi snjóflóðin
Ljósmynd/Verkís-Gísli S. Pétursson

Hún benti á að tjónið í Neskaupstað sé sambærilegt því sem varð á Flateyri árið 2020. Þegar svona iðufaldur lendi á mannvirkjum, nái hann að brjóta upp glugga og dyr og fylla öll rými. „Það er rosalega kaótískur snjór inni í þessum iðufaldi þannig að hann sprautast í rauninni inn í öll rými og fyllir þau og þar sem krafturinn er mestur kemst hann aftur út í gegnum glugga- eða dyraop“ sagði Kristín Martha.

Hún segir ofanflóðavarnirnar í Neskaupstað hafa sannað gildi sitt og telur að ekki þurfi að breyta hönnun síðasta hluta varnargarðanna áður en þeir verða byggðir. „Eftir að hafa skoðað þetta í gær líður mér miklu betur því við höfum verið að endurbæta hönnunina fyrir ofan Flateyri út af svona iðufaldi. Það sem við leggjum til þar er að setja raðir af keilum ofan við leiðigarðinn og akkúrat núna fyrir ofan Tröllagil (í Neskaupstað) þá sjáum við mjög glöggt hvernig þær virka og þær virka vel gagnvart þessum iðufaldi. Þeir taka allt höggið úr iðufaldinum og þá sest snjórinn bara vinsamlega fyrir framan þvergarðinn,“ segir Kristín Martha.

Ræddi snjóflóðin í Neskaupstað á Rás 1
Myndin er tekin í Neskaupstað í gær, þriðjudaginn 28. mars.