29/07/2019

Segir yfirbyggðu knatthúsin eiga þátt í árangrinum

Fjölnota knatthús
Fjölnota knatthús

Fjögur knatthús eru í byggingu á höfuðborgarsvæðinu um þessar mundir og hefur Verkís aðkomu að byggingu þeirra allra. Fjallað var um fjölnota íþróttahús í kvöldfréttum Ríkisútvarpsins á laugardaginn og árangurinn sem þau hafa skilað.

Yfirbyggðum knattspyrnuhúsum, sem í sumum tilvikum eru einnig fjölnota íþróttahús, hefur fjölgað ört hér á landi á síðustu árum. Í dag eru sjö hús með fótboltavöllum í fullri stærð og sex hús eru með völl í hálfri stærð. Húsin sem eru í byggingu á höfuðborgarsvæðinu eru Skessan í Hafnarfirði, fjölnota íþróttahús í Garðabæ og fjölnota hús með fótboltavöll í hálfri stærð í Mosfellsbæ. Þá er einnig verið að byggja fjölnota íþróttahús á Selfossi.

Arnar Þór Viðarsson, yfirmaður knattspyrnusviðs hjá KSÍ, sagði í samtali við RÚV að fótboltahallirnar sem hafa risið á síðustu árum hafi að einhverju leyti skapað þann árangur sem náðst hefur hjá íslensku knattspyrnufólki undanfarin ár. Íslensk ungmenni búi við mjög góða aðstöðu til íþróttaiðkunar og veðráttan á Íslandi undirstriki mikilvægi knattspyrnuhúsanna.

Þessa dagana hefur Verkís aðkomu að byggingu fimm yfirbyggðra íþróttahúsa; í Garðabæ, Mosfellsbæ, Suður Mjódd, á Selfossi og í Hafnarfirði. Áður hefur Verkís komið að byggingu fjölda íþróttamannvirkja, t.d. tveggja knatthúsa í Hafnarfirði, íþróttaaðstöðu í Þorlákshöfn, fjölda sundlauga hér á landi og erlendis og íþróttamiðstöðvum um allt land.

Frétt á vef RÚV.

Skessan – Fjölnota knatthús í Hafnarfirði er í byggingu (Ljósmynd/Skjáskot RÚV)

Fjölnota íþróttahús í Mosfellsbæ er í byggingu (Ljósmynd/Skjáskot RÚV)

Hér mun fjölnota íþróttahús rísa í Garðabæ (Ljósmynd/Skjáskot RÚV)

Fjölnota knatthús
Fjölnota knatthús