Slysum fækkaði eftir breytingar á umferðarljósum
Slysum fækkaði eftir breytingar á umferðarljósum. Mikill ávinningur var af því að setja sérvarða vinstribeygjustrauma á þrjú fjölfarin gatnamót í Reykjavík. Eftir að breytingar voru gerðar á umferðarljósum gatnamótanna fækkaði vinstribeygjuslysum mikið og vakti sérstaklega eftirtekt hversu mikið slíkum slysum með meiðslum fækkaði.
Þetta kemur fram í erindi Önnu Guðrúnar Stefánsdóttur, umhverfis- og skipulagsverkfræðings hjá Verkís, sem hún flytur á Rannsóknarráðstefnu Vegagerðarinnar í Hörpu í dag, föstudaginn 1. nóvember. Þar mun hún greina frá niðurstöðum skýrslunnar Ávinningur af óhindruðum beygjustraumum sem Verkís vann fyrir Vegagerðina. Skýrsluna vann Anna Guðrún ásamt Helgu Magnadóttur, verkfræðinema hjá Verkís.
Skýrslan er framhald af skýrslunni Miklabraut/Kringlumýrarbraut. Ávinningur af óhindruðum beygjustraumum sem Verkís vann fyrir Vegagerðina í árið 2010. Þar var skoðað hvaða áhrif breytingar á ljósastýringu á gatnamótum Kringlumýrarbrautar og Miklubrautar hefðu á umferðaröryggi.
Endurbætur skila sér til baka til samfélagsins
Almennt er viðurkennt að vinstribeygjustraumar eru hættulegustu straumarnir á gatnamótum. Ýmislegt hefur verið gert á gatnamótum til að minnka þessa áhættu, m.a. að verja vinstribeygjurnar með sér fasa á umferðarljósum, þ.e. sér vinstribeygjuljós Það að bæta við sér vinstribeygjufösum hefur áhrif til hins verra á umferðarrýmd og því þurfa að vera sterk rök fyrir því að gera þessar breytingar. Tilgangur verkefnisins er að skoða fjögurra-fasa ljós með það markmið meta ávinning breytinga út frá umferðaröryggissjónarmiðum.
Í áðurnefndu verkefni var slysatíðni og alvarleiki umferðarslysa skoðaður fyrir og eftir breytingar á umferðarljósum á þremur gatnamótum. Til skoðunar voru gatnamót Kringlumýrarbrautar og Miklubrautar, Laugavegar og Kringlumýrarbrautar og Miklubrautar og Grensásvegar. Skoðuð voru slysagögn fimm ár fyrir og eftir breytingar.
Helstu niðurstöðurnar eru að mikill ávinningur var af því að setja sérvarða vinstribeygjustrauma á öllum gatnamótunum. Vinstribeygjuslysum fækkaði mikið eða um 93% á KrMi, 77% á LauKri og 100% á GreMi. Sérstaklega var eftirtektarvert hvað vinstribeygjuslysum með meiðslum fækkaði mikið.
Greinileg lækkun varð í slysatíðni á öllum þremur gatnamótunum eftir breytingar. Minnst voru áhrifin á GreMi þar sem slysatíðnin lækkaði um 15% en lækkunin var mun meiri á hinum tveimur gatnamótunum, þ.e. 45% á KriMi og 47% á LauKri.
Sýnt þykir, með tilvísun í alvarleikastuðul, slysatíðni og vinstribeygjuslys og kostnað við þau, að ávinningur af endurbótunum sé talsverður. Fjárhagslegur ávinningur við uppsetningu vinstribeygjuljósa á allar stefnur er mikill og endurbætur á gatnamótum, þar sem hægt er að koma slíku við, getur skilað sér tilbaka til samfélagsins á fáum árum.