12/09/2019

Sögðu frá hönnun flóðvara á Íslandi

Erindið byggir á grein Pálma Ragnars, Fjólu Guðrúnar Sigtryggsdóttur, prófessors við NTNU í Þrándheimi í Noregi, Kristínar Mörthu, Auðar Atladóttur, byggingarverkfræðings á orkusviði Verkís, Harnar Hrafnsdóttur, vatnsauðlindaverkfræðingi á Orkusviði Verkís og Ólafar Rósar Káradóttur, verkefnastjóra hjá Landvirkjun. Pálmi Ragnar hefur unnið að hönnun flóðvara samhliða stífluhönnun síðan 1970.

Í yfirlitsgrein um efnið sem gefin var út í ráðstefnuritinu er fjallað um nauðsyn flóðvara á svæðum þar sem vatnasvið ná
inn á jökla, vegna mögulegra jökulhlaupa inn í uppistöðulón. Flóðvör eru hönnuð
til þess að hugsanlegt stíflubrot í ófyrirsjáanlegum aðstæðum þar sem
innrennsli í lón er meira en stífla er hönnuð fyrir, eigi sér stað á völdum
stað. Rennsli neðan flóðvars
er beint í tiltekinn farveg með leiðigörðum eða veggjum. Almennt er hæð
flóðvara um 1 m lægri en hæð stíflukrónu. Flóðvarið er hannað þannig að rof
jarðefna gerist hratt ef flæða tekur yfir flóðvarið, þ.a. flóðvarið rofni áður
en tekur að flæða yfir aðra hluta stíflunnar en þó þannig að að rofbreidd
takmarkist við flóðvarið.

Alls eru
níu flóðvör í stíflum Landsvirkjunar, þar af átta á vatnasviði Þjórsár,
Köldukvíslar og Tungnaár og eitt á vatnasviði Jökulsár á Brú. Fyrsta flóðvar á
Íslandi hannaði verkfræðistofan Harza árið 1966 ofan Bjarnarlóns við Búrfellsstöð
en síðustu endurbætur á flóðvari við Hágöngustíflu 2014. Á sama tíma var
nýtt flóðvar hannað í Svartárstíflu, sem er hluti af Kvíslaveitu. Ráðist var í
þær endurbætur vegna líkinda á aukinni eldvirkni á Bárðarbungukerfinu.
Sprungugos undir Köldukvíslarjökli kann að valda jökulhlaupi inn í Hágöngulón
og þaðan í Kvíslaveitu.

Hönnun
flóðvara hérlendis hefur breyst mjög í tímans ráðs, með aukinni þekkingu á
jarðtæknilegri hönnun og eðli stíflubrota almennt (jöfnur Froehlichs um roftíma
og roflengd), ásamt niðurstöðum tilrauna. Þekking á hættu af jökulhlaupum,
hefur líka aukist. Hönnun flóðvara eftir 1996 byggir á reynslutölum um bráðnun
og rennsli frá sprungugosum undir þykkum jökli í hinu 14 daga langa Gjálpargosi
1996.

Ýmsir
óvissuþættir eru enn um jarðtæknihönnun flóðvara, t.d. um roftíma og lengd rofs
í kjölfar langvarandi jökulhlaupa, hvernig val á fyllingarefnum, gerð
flóðvarstár og skurðir eftir flóðvörum hafi áhrif á rofhraða, áhrif þess að lón
sé fullt af ís og skafið hafi yfir flóðvar þegar flóð verður o.fl. Til þess að
tæpa á nokkrum þessara spurninga hefur Unnar Númi Almarsson, verkfræðingur á
Orkusviði Verkís, unnið tilraunir við NTNU í Þrándheimi undir handleiðslu Fjólu
Guðrúnar Sigtryggsdóttur. Tilraunirnar eru hluti af meistaraverkefni hans við HÍ.

Frétt Verkís: Verkís tekur þátt í Evrópsku jarðtækniráðstefnunni í Hörpu
Um þjónustu Verkís á sviði jarðtækni

Erindi um hönnun flóðvara í stíflum Landsvirkjunar
09435018-flodvor-island