18/06/2020

Stærsta neðanjarðarlestarverkefni í Noregi í seinni tíð

Stærsta neðanjarðarlestarverkefni í Noregi í seinni tíð
Hluti af Fornebubanen leiðinni

Stærsta neðanjarðarlestarverkefni í Noregi í seinni tíð. Verkís mun sjá um óháða rýni á hönnun og framkvæmdum vegna Fornebubanen, stærsta neðanjarðarlestarverkefnis í Noregi í seinni tíð. Verkefnið er mjög umfangsmikið og er heildar kostnaður við verkefnið rúmlega 16 milljarðar norskra króna, eða um 225 milljarðar íslenskra króna.

Leiðin, sem liggur frá Majorstuen til Fornebu, verður rúmlega átta kílómetra löng. Byggðar verða sex lestarstöðvar neðanjarðar sem verða hluti af leiðinni. Hægt verður að flytja allt að átta þúsund manns á klukkustund, en ferðatími er áætlaður 12 mínútur. Framkvæmdir hefjast síðar á þessu ári og er áætlað að hægt verði að taka hana í notkun árið 2027.

Með nýju lestarkerfi neðanjarðar er íbúum á svæðinu gefinn kostur á góðum og skilvirkum samgöngum. Þá er hægt að draga úr bílaumferð á vegum og þar af leiðandi mengun. Verkefnið þykir mikilvægt fyrir framtíðarvöxt Oslóar-svæðisins.

Það þarf að huga að ýmsu við gerð línunnar. Jafnvel þó að hún verði öll neðanjarðar þarf að kaupa land og eignir á svæðinu til að koma línunni og mannvirkjum vegna hennar fyrir.

Samkvæmt norskri byggingarreglugerð þarf óháður aðili að fara yfir hönnun og sjá um óháða rýni á framkvæmdatíma við ákveðna þætti verkefnisins og var Verkís valið til að sjá um þennan hluta verksins. Þannig sér Verkís um óháða rýni vegna bruna-, burðarþols-, jarðtækni-, jarðverkfræði og eðlisfræði bygginga.

Í þessu myndbandi (Facebook) má sjá þann hluta leiðarinnar sem liggur frá Majourstuen til Fornebu. Framkvæmdirnar hefjast í október á þessu ári.

Nánar er fjallað um verkefnið hér .

Heimsmarkmið

Stærsta neðanjarðarlestarverkefni í Noregi í seinni tíð
Hluti af Fornebubanen leiðinni