07/06/2021

Svarmi mælir gasmengun í Geldingadölum

Svarmi gasmengun Geldingadalir
Gasmælingar við gosstöðvarnar í Geldingadölum

Svarmi, dótturfélag Verkís, hefur að undanförnu sinnt gasmælingum við gosstöðvarnar í Geldingadölum. Með því að nota dróna er hægt að framkvæma mælingar á eldgosum sem áður hefði verið afar erfitt eða ómögulegt að gera.

Eldgos hófst í Geldingadölum á Reykjanesi föstudaginn 19. mars sl. Svarmi hefur unnið með og fyrir Evgeniu Iluinskayu, eldfjallafræðing hjá Háskólanum í Leeds og Veðurstofu Íslands að gasmælingum á svæðinu. Aðstæður hafa verið afar krefjandi á köflum en náin samvinna þeirra sem tóku þátt varð til þess að allt gekk vonum framar.

Gasmengun hefur verið viðvarandi við gosstöðvarnar og orðið veruleg við ákveðin skilyrði. Notaður var dróni til að mæla gastegundir á borð við SO2, CO2 og H2S og síu til að mæla þungmálma. Mælingar voru framkvæmdar alveg við gosið og einnig í nokkurra kílómetra fjarlægð. Þetta var gert til þess að varpa ljósi á hvernig málmar og lofttegundir dreifast út í andrúmsloftið frá eldgosum. Drónar eru gott tæki fyrir mælingar sem þessar því þeir bjóða upp á sveigjanleika sem ekki næst með mönnuðum flugvélum eða á jörðu niðri.

Svarmi er íslenskt gagnafyrirtæki á sviði fjarkönnunar sem notast við gögn frá drónum og gervihnöttum. Svarmi er að hluta til í eigu Verkís og fyrirtækin starfa þétt saman í því að leiða tækniþróun á þessum markaði bæði hér innanlands sem og erlendis.

Nýjustu fréttir af eldgosinu við Fagradalsfjall | Fréttir | Veðurstofa Íslands (vedur.is)

Heimasíða Svarma

Heimsmarkmið

Svarmi gasmengun Geldingadalir
Gasmælingar við gosstöðvarnar í Geldingadölum