03/11/2022

Þjónustuhúsið Laufskálavarða tilnefnt

Laufskálavarða
Laufskálavarða

Þjónustuhúsið Laufskálavarða tilnefnt til Hönnunarverðlauna Íslands. Samstarfsverkefni Sannra landvætta og Stáss arkitekta hefur verið tilnefnt til Hönnunarverðlauna Íslands 2022. Verðlaunin verða afhent í Grósku þann 17. nóvember nk.

Verkís sá um alla verkfræðilega hönnun byggingarinnar sem er teiknuð af Stáss arkitektum. Hönnun lýsingar í gangi og utan á húsinu var samstarfsverkefni Verkís og Stáss. Lóð staðarins var einnig hönnuð af landslagsarkitektum Verkís, þar með talið bílastæðið, stéttin í kringum húsið og göngustígar á svæðinu. Hönnuðir lögðu mikla áherslu á umhverfisvænt efnisval og að hönnunin myndi falla vel að umhverfinu.

Sannir landvættir sem eru að hluta til í eigu Verkís, fengu styrk frá Framkvæmdasjóði ferðamanna til að græða upp skemmdir á svæðinu og til að gera bílastæðið. Bygging hússins var alfarið fjármögnuð af Sönnum landvættum.

Rökstuðningur dómnefndar vegna tilnefningarinnar:

Þjónustuhúsið við Laufskálavörðu stendur auðmjúk sem látlaust manngert skýli andspænis íslensku náttúrunni – án þess að keppa við hana og án þess að vera lýti í umhverfinu. Byggingin er teiknuð af Stáss arkitektum. Það er aðeins 30m2 að stærð og stakstætt á Mýrdalssandi við þjóðveginn. 

Hér er þarfamiðuð nálgun leiðarstefið við að skapa úthugsaðan og nytsamlegan áningarstað í víðáttunni. Ólíkum notkunarmöguleikum er tvinnað saman á fáum fermetrum sem samanstanda af salernisaðstöðu, þvottaaðstöðu, útsýnispalli, hvíldarbekk, og aðstöðu fyrir hjólreiðafólk.

Byggingin er hagnýt og beinir athygli að náttúrunni og býður upp á að fólk njóti hennar án þess að á henni sé traðkað. Vegfarendur geta nýtt sér hana til að leita skjóls ef illa viðrar eða til að náð áttum á útsýnispallinum á þaki byggingarinnar þar sem útsýni er yfir að Mýrdalsjökli  og eldstöðinni Kötlu. Hönnunin er sérlega góð fyrirmynd faglegrar umgjarðar, sem mætti útfæra víðar um landið.

Fagmiðillinn Archilovers valdi áningarstaðinn eitt besta verkefni ársins á síðasta ári fyrir fagurfræði sína, sköpun og notkunarmöguleika.

Heimsmarkmið

Laufskálavarða
Laufskálavarða