25/04/2022

Uppgræðslu og hlýju veðri fylgir meiri hætta á gróðureldum

Gróðureldar
Meiri hætta á gróðureldum

Mikil uppgræðsla landsins og hlýrra veðurfar hefur valdið því að meiri hætta er á gróðureldum en áður. Eldri sumarhúsabyggðir þar sem áður voru móar og melar eru nú þéttgróið kjarrlendi og skipulag flóttaleiða ekki gott.

„Yfirleitt er það aðgæsluleysi sem kemur gróðureldum af stað. Til dæmis þegar eldur er kveiktur úti í náttúrunni, skotið er upp flugeldum eða sígarettu með glóð er fleygt. En gróðureldur getur líka kviknað út frá neistum frá rafmagnsverkfærum, eldingum eða jafnvel útblæstri bifreiða,“ segir Dóra Hjálmarsdóttir, rafmagnsverkfræðingur hjá Verkís, í viðtali við Fréttablaðið.  Hún er fulltrúi í samstarfi almannavarna, Skógræktarinnar og fleiri opinberra aðila og félaga um varnir gegn gróðureldum.

Apríl og maí er hættulegasti tíminn, einkum þegar þurrt er í veðri líkt og í fyrra. Sinan, sem er mikill eldsmatur, kemur undan snjónum og vindurinn getur dreift úr bálinu. Hættan minnkar um leið og gróðurinn nær sér á strik en þó getur sumarið verið hættulegt ef þurrkar verða langir.

„Í eldri sumarhúsabyggðum þar sem áður voru móar og melar er núna orðinn mjög þéttur gróður, vatnsöflun ekki alveg í lagi og flóttaleið oft aðeins ein,“ segir hún. Þá séu vegir víða það lélegir að þeir bera ekki stóra tankbíla.

Dóra segir mikilvægt fyrir sumarhúsaeigendur og aðra að kynna sér fræðsluefni, svo sem á vef Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar og inni á síðunni grodureldar.is. Skoða þurfi gróður í kringum hús, grisja þann sem er næst og gæta þess að ekki vaxi gróður undir palla.

Nauðsynlegt sé að eiga langa slöngu, slökkvitæki, tröppur og nornakúst til að slökkva í glóð. Þá skipti miklu máli að vera meðvituð um að kveikja eld, til dæmi í grilli, á öruggum svæðum. Komi upp gróðureldur beri að hringja í 112 og gera öðrum í nágrenninu viðvart, slökkva eld ef hann er lítill en alltaf tryggja eigið öryggi.

„Fólk þarf að þekkja útgönguleiðirnar af svæðinu, örugga staði og passa sig að lenda ekki í reyknum undan vindi,“ segir Dóra. Einnig að láta vita þegar fólk er komið í öruggt skjól.

Myndband frá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun um gróðurelda 

Heimsmarkmið

Gróðureldar
Meiri hætta á gróðureldum