14/11/2023

Varnargarðar á Suðurnesjum

Varnargarðar á Suðurnesjum
Fyrirhugaður varnargarður í kringum Svartsengi og Bláa lónið

Varnargarðar á Suðurnesjum. Framkvæmdir vegna varnargarðanna á Suðurnesjum eru nú í fullum gangi og spilar Verkís stórt hlutverk í þeim framkvæmdum í samvinnu við fjölda verktaka, almannavarnir og fleiri. Ari Guðmundsson, sviðsstjóri hjá Verkís, stýrir þessum aðgerðum og hefur í nægu að snúast við þetta stóra verkefni og var í viðtali við Vísi í morgun.

Í framkvæmd af þessum stærðarskala eru margir aðilar sem leggja hönd á plóg og voru til að mynda í kringum fjörutíu starfsmenn og rúmlega þrjátíu vörubílar sem fluttu efni úr námu í Stapafelli í gær og í morgun og fluttu efni að svæðinu sem varnargarðarnir verða reistir. Náman er staðsett vestan Grindavíkurvegar og er um 15 km akstursleið frá Svartsengi. Efnið hefur verið haugsett við garðinn svo að auðvelt verði að hefja vinnu þegar leyfi hefur verið veitt. Þessum görðum er ætlað að vernda virkjunina í Svartsengi og Bláa lónið.

Orkuver HS Orku í Svartsengi.
Orkuver HS Orku í Svartsengi. ©VÍSIR/VILHELM

Varnargarðarnir verða annars vegar tæplega fjögurra kílómetrar að lengd utan um Svartsengi og hins vegar tæplega einn og hálfur kílómeter á milli Sundhnúka og Svartengis. Báðir garðar verða síðan sex til átta metra háir.

Dómsmálaráðherra og almannavarnir gáfu grænt ljós fyrir því að vinna hæfist á öðrum tímanum í dag. Næstu skref verða að hefja vinnu á tveimur stöðum. Annars vegar ýta til efni í garðinum milli Sundhnúkagígaraðarinnar og Svartsengis og hins vegar að keyra efni út í austasta hluta varnargarðsins, upp við Sýlingarfell norðaustan við Svartsengi.

Ljóst er að mikil óvissa er með ástandið á Suðurnesjum og er því tímaramminn á framkvæmdinni eftir því. Ari segir að þetta gæti verið nokkrar vikur og nefnt hefur verið 30-40 dagar, en hann ítrekar að það veltur auðvitað á þróun aðstæðna í kringum vinnusvæðið.

 

Heimsmarkmið

Varnargarðar á Suðurnesjum
Fyrirhugaður varnargarður í kringum Svartsengi og Bláa lónið