05/11/2019

Verkís fjallar um landtengingar skipa á Sjávarútvegsráðstefnunni

Landtengingar skipa
Landtengingar skipa

Fimmtudaginn 7. nóvember flytur Kjartan Jónsson, rafmagns- og rekstrariðnfræðingur hjá Verkís, erindið Rafmagns landtengingar stærri skipa á Sjávarútvegsráðstefnunni sem haldin er í Hörpu. Verkís verður einnig með kynningarbás á ráðstefnunni.

Skip þurfa ekki aðeins orku þegar þeim er siglt um heimsins höf, mörg þeirra þurfa einnig rafmagn þegar þau liggja við bryggju. Boðið hefur verið upp á landtengingar skipa í íslenskum höfnum frá því vel fyrir 1980.

Þessar landtengingar hafa verið fyrir minni skip en ekki fyrir stærri skip á borð við nýja frystitogara, fraktskip, varðskip, rannsóknarskip og skemmtiferðaskip. Ástæða þess er sú að hafnirnar hafa ekki nægilega aflmiklar tengingar og eins er einhver hluti þessara skipa ekki tilbúinn til að tengjast landrafmagni á Íslandi.

Landtenging skipa er umhverfisvæn lausn þar sem hægt er að slökkva á ljósavélum þeirra þegar þau liggja við bryggju og eru þá tengd við rafmagn. Þar með er öllum bruna eldsneytis hætt og þá verður jafnframt minni hljóðmengun frá skipunum á meðan þau eru í höfninni.

Til þess að hægt sé að landtengja skip þarf að styrkja rafkerfi að höfnum og á hafnarbakka þannig að tengingarnar geti útvegað það afl sem þarf. Verkís hefur unnið að landtengingarverkefnum víða um land fyrir hafnir og orkufyrirtæki ásamt því að afla sér sérfræðiþekkingar, m.a. með því að fylgjast grannt með þróun stærri landtenginga í öðrum löndum.

Rafmagns landtengingar stærri skipa 

Kjartan Jónsson, rafmagns- og rekstrariðnfræðingur hjá Verkís
Sjávarútvegsráðstefnan 2019
Fimmtudagur 7. nóvember kl. 16.15, Silfurberg A, Harpa

Um þjónustu Verkís á sviði landtenginga 
Ráðstefnuhefti Sjávarútvegsráðstefnunnar 2019

Landtengingar skipa
Landtengingar skipa