07/10/2022

Verkís hlýtur styrk úr Vísindasjóði OR

Tjörnin í Reykjavík

Samstarfsverkefni Verkís, Háskólans í Reykjavík, Veitna og Hafrannsóknarstofnunar, Mat á hreinsivirkni blágrænna ofanvatnslausna á Íslandi og vernd vatnsgæða í Tjörninni í Reykjavík hefur hlotið styrk að upphæð 8,5 milljón úr Vísindasjóði Orkuveitu Reykjavíkur. Styrkir úr sjóðnum voru afhentir við hátíðlega afhöfn í gær, fimmtudag.

Innleiðing blágrænna ofanvatnslausna á afrennslissvæði Tjarnarinnar getur stutt við markmið nýsamþykktrar Vatnaáætlunar Íslands um að ná umhverfismarkmiðum Tjarnarinnar sem eru í hættu. Auk þess mun álag vegna loftslagsbreytinga á regnvatnskerfi framtíðarinnar leiða til þess að ofanvatn fái í meira mæli aftur náttúrulegan farveg og því mikilvægt að koma með sjálfbærar lausnir á vernd gegn mengunarvöldum úr ofanvatni á Íslandi.

Dæmi um blágrænar ofanvatnslausnir í miðbæ Reykjavíkur.

Markmið verkefnisins er tvíþætt:

• Að meta virkni blágrænna ofanvatnslausna á Íslandi hvað varðar hreinsun mengunarefna úr ofanvatni.
• Að skoða helstu mengunarvalda á afrennslissvæði Vatnmýrarinnar-Tjarnarinnar, meta styrk og uppruna þeirra miðað við rannsóknir og reynslu erlendis frá og stilla upp líkani þar sem hægt er að skoða breytingar á mengunarálagi við framtíðarinnleiðingu á blágrænum ofanvatnslausnum.

Rannsóknir á hreinsivirkni blágrænna ofanvatnslausna hafa ekki verið framkvæmdar á Íslandi svo vitað sé til. Þá hefur greining á mengunarvöldum í ofanvatni verið af skornum skammti. Verkefnið mun koma með nýjan skilning á nauðsyn meðhöndlunar ofanvatns á Íslandi vegna breytinga á veðurfari í kjölfar loftlagsbreytinga. Einnig munu niðurstöður verkefnisins styðja við nýsköpun í hönnun og framkvæmdum innan fráveitugeirans og styrkja veitufyrirtækin í að koma á sjálfbærum aðferðum við meðhöndlun ofanvatns.

Sigurður Grétar Sigmarsson, vatnsauðlindaverkfræðingur hjá Verkís mun leiða verkefnið fyrir hönd fyrirtækisins og sjá um verkefnisstjórn og býður Verkís fram tækjakost s.s. sýnatökubúnað og rennslis- og regnmæla ásamt sérþekkingu í mælingum og sýnatöku ásamt sérþekkingu á málefnum ofanvatns.

Heimsmarkmið

Tjörnin í Reykjavík