21/10/2019

Verkís með erindi á Hydro 2019

Hörn með erindi á HYDRO
Hörn með erindi á HYDRO

Ráðstefnan HYDRO 2019 var haldin í Portó í Portúgal dagana 14.-16. október. Verkís sendi tvo fulltrúa á ráðstefnuna, þau Hörn Hrafnsdóttur, vatnsauðlindaverkfræðing og Ragnar D. Stefánsson, rafmagnsverkfræðing.

Hörn flutti erindi um breytingar sem gerðar voru 2016/17 á inntaks- og stíflumannvirkjum Laxárvirkjunar III, auk þess sem grein um breytingarnar var birt í ráðstefnugögnunum.

Greinina skrifaði Hörn ásamt þeim Guðmundi R. Stefánssyni, Einari Erlingssyni, Guðmundi Péturssyni og Guðmundi Björnssyni, verkfræðingum hjá Landsvirkjun og Landsvirkjun Power.

Markmið ráðstefnunnar var að miðla reynslu og tengja saman aðila í faginu, hvort sem um er að ræða eigendur virkjana, ráðgjafa, hönnuði, framleiðendur eða fjármögnunaraðila. Um 1.300 manns tóku þátt frá 79 löndum.

Hörn Hrafnsdóttir, vatnsauðlindaverkfræðingur og sérfræðingur í ís- og aurburðarmálum, flutti erindið Endurbætur á stíflu- og inntaksmannvirkjum Laxárvirkjunar III.  Verkís annaðist ráðgjöf og hönnun á breytingunum sem ráðist var í. Tilgangur breytinganna var að minnka rekstrartruflanir vegna ís- og aurburðar í Laxá í Laxárdal til og í gegnum virkjunina, þ.e. vatnsvegi og vél.

Hönnunin felur í sér nýtt inntak framan við eldra inntak þar sem:

  • Ísfleytingaryfirfalli er komið fyrir yfir inntakinu og ísnum þannig fleytt framhjá virkjuninni og til baka í farveg Laxár neðan stíflunnar
  • Tveimur sandgildrum var komið fyrir í inntakinu ásamt sandskolunarbúnaði sem skolar efninu til baka í farveg Laxár.

Greint var frá reynslu í rekstri eftir að breytt mannvirki var tekið í notkun. Rekstrartruflanir í orkuframleiðslu vegna inntakssvæðisins hafa ekki átt sér stað eftir breytingarnar og slit á vélum er orðið eðlilegt en var áður mjög mikið.

Sameiginlegur kynningarbás íslenskra fyrirtækja

Landsvirkjun ásamt verkfræðistofunum Verkís, Vatnaskilum, Mannviti og Eflu, stóðu vaktina í íslenska bás ráðstefnunnar í samvinnu við Íslandsstofu.

Þar bauð Hörn einnig uppá örerindi auk þess sem boðið var uppá flatkökur með hangikjöti. Mikið var um gestagang í básnum auk þess sem margir komu og vildu fræðast meira um verkefnið í Laxá

Hörn Hrafnsdóttir, vatnsauðlindaverkfræðingur og Ragnar D. Stefánsson, rafmagnsverkfræðingur.

Um þjónustu Verkís að sviði vatnsaflsvirkjana

Hörn með erindi á HYDRO
Hörn með erindi á HYDRO