23/08/2019

Verkís sendir lið á heimsmeistaramót í rafbílarallýi

Verkís sendir lið á heimsmeistaramót í rafbílarallýi
Verkís sendir lið á heimsmeistaramót í rafbílarallýi

Verkís sendir lið á heimsmeistaramót í rafbílarallýi. Í dag og á morgun fer fram annað heimsmeistaramótið í rafbílarallýi sem hefur verið haldið hér á landi. Markmið þess er m.a. að hvetja ökumenn til að breyta akstri sínum með áherslu á umhverfisvernd og sjálfbærni bílaumferðar með því að nota rafmagn sem drifkraft ökutækja. Ragnar Haraldson og Hlíf Ísaksdóttir munu taka þátt fyrir hönd Verkís og aka e-Golf, bíl í eigu fyrirtækisins.

Líkt og í öðrum rallýkeppnum eru tveir keppendur í liði og sér ökumaðurinn eðli málsins samkvæmt um aksturinn. Aðstoðarökumaðurinn gegnir þó ekki síður mikilvægu hlutverki því hann leiðbeinir ökumanninum og gefur honum m.a. upplýsingar um hversu hratt hann má keyra hverju sinni. Þessar upplýsingar setur liðið saman og getur góður undirbúningur verið lykillinn að sigri í keppni sem þessari.

Ragnar er ökumaður liðsins. Hann er raflagnahönnuður á byggingarsviði Verkís. Hann hefur verið drifkrafturinn á bak við þátttöku Verkís í WOW Cyclothon síðustu ár. Þar hefur hann lagt mikla áherslu á að lið fyrirtækisins komi vel undirbúið og skipulagt til leiks og ætla má að hið sama gildi um keppni helgarinnar.

Hlíf gegnir hlutverki aðstoðarökumanns. Hún er byggingarverkfræðingur á samgöngu- og umhverfissviði Verkís og stjórnarformaður fyrirtækisins. Hlíf er vön því að vinna undir álagi með Ragnari því hún hefur verið ein af máttarstólpum liðs Verkís í WOW Cyclothon.

Frá ræsingunni í morgun. 

Snýst ekki um að koma fyrst í mark

Keppt er á óbreyttum rafmagnsbílum með reglum sem notaðar eru í nákvæmnisakstri (e. regularity rally) þar sem ávallt er ekið innan löglegs hámarkshraða. Keppnin snýst ekki um að liðið komi fyrst í mark, heldur hver nær að aka fyrirfram ákveðna leið sem næst ákveðnum tímamörkum. Þannig eru stig dregin af liðinu ef það kemur of snemma eða seint í mark.

Keppnin gengur út að aka fyrirfram ákveðna leið samkvæmt leiðarbók og á hraða sem gefinn er upp í leiðarbókinni. Á nokkrum stöðum á leiðinni eru mælistaðir, þar sem bíllinn þarf að vera staddur á réttu sekúndubroti, að viðlagðri refsingu.

Keppnin er hefðbundin keppni í nákvæmnisakstri í tveimur hlutum með samtals sex leggjum á tveimur dögum. Keppnin verður keyrð á almennum opnum vegum í hefðbundinni umferð. Valdar eru fallegar leiðir í nágrenni Reykjavíkur, að mestu malbikaðir en einnig eru nokkrir malarvegir. Keppnin hefst kl. 7 á föstudagsmorgun þegar fyrstu keppendur verða ræstir frá höfuðstöðvum ON að Bæjarhálsi 1 og lýkur á sama stað þegar keppendur koma í mark á morgun, laugardag, um kl. 16 og verður þá ljóst hver sigrar.

Nánari upplýsingar um keppnina
Hér má sjá leiðir og tímasetningar

Um þjónustu Verkís á sviði rafbíla

Verkís sendir lið á heimsmeistaramót í rafbílarallýi
Verkís sendir lið á heimsmeistaramót í rafbílarallýi