07/06/2021

Verkís skilar sjálfbærniskýrslu í þriðja sinn

Verkís hefur skilað sjálfbærniskýrslu vegna sáttmála SÞ um samfélagsábyrgð (e. UN Global Compact) fyrir árið 2020. Samhliða skilunum var undirsíða á heimasíðu okkar um sjálfbærni uppfærð.

Samfélagsábyrgð með sjálfbærni að leiðarljósi hefur birst í starfsemi Verkís frá upphafi, svo sem í gæðaferlum og sérstökum áherslum á umhverfis- og öryggismál. Verkís tekur hlutverk sitt sem þátttakandi í samfélaginu alvarlega og leitar stöðugt nýrra leiða til að veita ráðgjöf sem styður við uppbyggingu sjálfbærra samfélaga.

Sjálfbærniskýrsla Verkís 2020

Verkfræðingar og hönnuðir eru áhrifavaldar þegar kemur að sjálfbærni og tækniþróun, enda oft á tíðum lykilaðilar í rannsóknum og verkefnum sem tengjast nýsköpun. Í störfum okkar horfum við í átt að sjálfbærni og leggjum áherslu á að lágmarka neikvæð áhrif af þeim verkefnum sem við höfum átt aðkomu að.

Síðastliðið eitt og hálft ár hefur heimsfaraldur haft gríðarleg áhrif á líf og störf. Við hjá Verkís þurftum, líkt og aðrir, að laga okkur að breyttum aðstæðum og sinnti meirihluti starfsmanna vinnu sinni að heiman í lengri eða skemmri tíma. Við erum stolt af starfsfólkinu sem leysti þetta vel af hendi.

Mikið dró úr losun gróðurhúsalofttegunda hjá Verkís á milli ára, m.a. þar sem ferðalög starfsfólks á milli landa lögðust alveg niður og verulega dró úr ferðum á milli heimilis og vinnustaðar. Vegna veirunnar vorum við knúin til að hugsa hlutina upp á nýtt og munum við eflaust nýta okkur þau vinnubrögð áfram að hluta þegar heimurinn opnast á ný. Við höfum meðal annars sett okkur fjarvinnustefnu sem gerir starfsfólki kleift að vinna hluta af vinnuvikunni heima og mun það án efa eiga þátt í að auka ekki losun gróðurhúsalofttegunda aftur.

Umfjöllunarefni skýrslunnar er ætlað að varpa ljósi á hvernig Verkís hefur gengið að innleiða sjálfbærniviðmið, bæði í rekstri stofunnar og þeirri þjónustu sem við veitum, sem og að uppfylla þau markmið sem við settum okkur um sjálfbærni á árinu.

Verkís skilar sjálfbærniskýrslu í annað sinn | Fréttir | www.verkis.is

Heimsmarkmið

Reykjanesvirkjun
Reykjanesvirkjun