27/05/2021

Verkís tekur þátt í vinnu starfshóps um varnir gegn gróðureldum

Húsnæðis- og mannvirkjastofnun hefur sett á laggirnar starfshóp um varnir gegn gróðureldum. Hópnum er ætlað að vinna að fyrirbyggjandi aðgerðum um gróðurelda, einkum í formi forvarna og fræðslu. Verkís er meðal þeirra sem eiga fulltrúa í hópnum.

Slökkvilið um allt land hafa sinnt 67 útköllum vegna gróðurelda frá 9. apríl og í fyrsta sinn var lýst yfir hættustigi vegna hættu á gróðureldum hér á landi í kjölfar umfangsmikilla gróðurelda í Heiðmörk fyrr í þessum mánuði.

Í tilkynningu stofnunarinnar segir að ljóst sé að gróðureldaváin sé komin til að vera, meðal annars fyrir tilstilli loftlagsbreytinga og aukinnar gróðursældar hér á landi. „Slökkvilið og viðbragðsaðilar hafa brugðist hratt við krefjandi aðstæðum en styrkja þarf stoðir og bæta búnað þess fólks sem sinnir slökkvistarfi og björgunaraðgerðum,“ segir einnig í tilkynningunni.

Auk þess að vinna að forvörnum og fræðslu mun starfshópurinn kortleggja nauðsynlegar breytingar á lögum og reglugerðum sem snerta gróðurelda og stuðla að breytingum þar sem þess reynist þörf, auk þess sem stefnt er að því að auka viðbúnað slökkviliða og almennings.

Starfshópinn um varnir gegn gróðureldum skipa auk Verkís Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, Félag slökkviliðsstjóra, Húsnæðis- og mannvirkjastofnun (HMS), Lögreglustjórafélag Íslands, Samband íslenskra sveitarfélaga, Skipulagsstofnun, Skógræktin og Veðurstofa Íslands.

Vinna að fyrirbyggjandi aðgerðum um gróðurelda | RÚV (ruv.is)
Brunavarnir-gróðureldar (verkis.is)
Hvernig er hægt að koma í veg fyrir eða bregðast við gróðureldum? | Fréttir | www.verkis.is
www.grodureldar.is
Forvarnir vegna gróðurelda I Verkefni I www.verkis.is

Heimsmarkmið

Groðureldar
grodureldar_skreytimynd