21/10/2022

Góð ljósvist fyrir heilsuna

Darío Gustavo Núñez Salazar og Tinna Kristín Þórðardóttir
Darío Gustavo Núñez Salazar og Tinna Kristín Þórðardóttir

Í dag fer Dagur verkfræðinnar fram á Hilton Reykjavík Nordica. Markmiðið með deginum er að kynna verkfræðina, spennandi verkefni og störf á því sviði og ekki síst efla tengsl og samheldni meðal íslenskra verkfræðinga og tæknifræðinga. Í tilefni af Degi verkfræðinnar birtist viðtal við þau Darío Gustavo Núñez Salazar og Tinnu Kristínu Þórðardóttur í Fréttablaðinu en þau eru bæði lýsingarhönnuðir hjá Verkís.

Þau Darío Gustavo Núñez Salazar og Tinna Kristín Þórðardóttir starfa sem lýsingarhönnuðir hjá Verkís. Þau segja starfið fjölbreytt en það snýst um að hanna lýsingu innan og utan dyra til að tryggja góða ljósvist.

Darío hefur starfað sem lýsingarhönnuður í fimmtán ár en Tinna í sjö. Þau segja fagið frekar nýtt en sé alltaf að verða viðurkenndara. „Stundum áttar fólk sig ekki alveg á hvað við gerum og ruglar okkur saman við ljósamenn í leikhúsi. Orðið lýsingarhönnuður getur verið villandi, það hefur verið komið með hugmynd að orðinu ljósvistarhönnuður, en við notum fyrra orðið enn sem komið er,“ segir hann.

Darío er í grunninn arkitekt og Tinna er með BS-gráðu í byggingafræði en bæði eru þau með mastersgráðu í lýsingarhönnun. Þau segja fagið þverfaglegt þar sem þau eru hönnuðir en vinnan er líka verkfræðileg.

Glerártorg
Stapaskóli

„Í starfi okkar þurfum við að huga vel að þeim sem nota húsnæðið. Við þurfum að huga að sjónrænum þægindum og að öllum líði vel. Þar spilar lýsing stórt hlutverk. Hún hefur áhrif á hvernig okkur líður inni í híbýlum þar sem við dveljum átta tíma á dag, eins og á vinnustöðum eða í skólum,“ segir Tinna. „Við vinnum mikið í skólum og í skrifstofuhúsnæði. Við erum að hanna lýsingu bæði innan og utan húss. Við höfum til dæmis hannað bæði götulýsingu og lýsingu á hafnarsvæðum.“

Darío tekur undir þetta og segir að vinnan þeirra nái yfir breitt svið.„Við erum mest að hanna lýsingu í stærra húsnæði eins og skrifstofum, skólum og spítölum en við hönnum líka heimilislýsingu. Úti við erum við að hanna fyrir innviði eins og samgöngur og líka lýsingu á torgum og fleira,“ segir hann.

Skapa andrúmsloft með lýsingu

Á Degi verkfræðinnar í dag halda þau Tinna og Darío fyrirlestur þar sem þau fara stuttlega yfir hvað felst í starfi þeirra auk þess sem þau munu sýna myndir af verkefnum sem þau hafa unnið að.

„Við förum meðal annars inn á þann misskilning að við séum aðallega að hanna lýsingu útlitsins vegna. Þegar við hugsum um lýsingu eins og fyrir skóla og skrifstofubyggingar sem dæmi, þá eru til staðlar og reglugerðir um hversu mikil birtan á að vera. Fólk setur kannski upp ljós til að uppfylla þessa staðla en það hugsar ekki um hvernig fólki líður í húsnæðinu. Er ljósið truflandi? Er það óþægilegt? Við viljum leggja áherslu á það að við þurfum að koma snemma inn í hönnunina svo lýsingin verði rétt,“ segir Tinna.

„Við byrjum ekki að hanna raflögn eða velja lampa, eins og einhverjir gætu haldið. Við byrjum alveg öfugt. Við sjáum hvaða andrúmsloft og stemningu þarf að búa til í rýminu. Því næst ákveðum við hvaða lýsing þarf að koma þar og eftir það veljum við réttan ljósabúnað. Helsta samtal okkar er við arkitekta, okkar hlutverk er mitt á milli verkfræði og arkitektúrs svo við þurfum að tala bæði tungumálin,“ segir Darío.

Þau Tinna og Darío segja að í starfi þeirra felist ekki einungis að hanna lýsingu í nýbyggingum heldur séu þau oft að endurhanna lýsingu í eldri húsum. „Það er oft haft samband við okkur ef fólk vill endurnýja lýsinguna í eldri byggingum,“ segir Tinna „Það er viss kostur þegar við erum að vinna við eitthvað sem er þegar búið að byggja, að við getum farið á staðinn og skoðað aðstæður. En þegar við erum að hanna fyrir nýbyggingar þá þurfum við að skoða vel teikningar, reikna og hanna vel út frá þeim,“ segir Darío.

Glerártorg
Glerártorg

Ljósvist er líka dagsbirta

Eitt af því sem gefur lýsingarhönnun aukið gildi, að sögn Darío, er heilsa. „Heilsa skiptir máli, núna er mikið rætt um það hvernig rými sem fólk dvelur í hefur áhrif á heilsu. Hljóðvist skiptir máli. En lýsingin skiptir líka máli. Við notum orðið ljósvist. Lýsing er ekki bara skraut,“ segir hann.

Tinna bætir við að ljósvist feli ekki aðeins í sér raflýsingu heldur einnig dagsbirtu. „Það hefur verið vinsælt umræðuefni undanfarið og mikið í fjölmiðlum að margar nýbyggingar eru illa hannaðar með tilliti til dagsbirtu. Þar komum við inn,“ segir hún. „Dagsbirta er ekki í byggingarreglugerð. En ég sit í starfshóp sem er að reyna að koma ljósvist inn í byggingarreglugerð og líka kröfu um dagsbirtu, eins og er á hinum Norðurlöndunum.“

Fjölbreytt verkefni

Þrátt fyrir að lýsingarhönnuðir séu tiltölulega ný stétt eru þeir að vinna hjá öllum stærstu verkfræðistofunum hér á landi. „Menntunin er fjölbreytt. Nokkrir eru sjálflærðir og eru mjög góðir í faginu en þar sem lýsingarhönnuður er ekki lögverndað starfsheiti er erfitt fyrir fólk að vita hverjir hafa réttu þekkinguna í starfið, en það er mjög mikilvægt að fagið verði viðurkennt í byggingarreglugerð,“ segir Darío.

„Þetta er sem betur fer alltaf að vera þekktara og þekktara fag. Ég er búin að vinna við þetta í sjö ár, en það var fólkið sem kom á undan mér sem tók slaginn til að þetta yrði viðurkennt fag,“ segir Tinna. „Þetta er bara kennt erlendis, en það er alltaf gaman að sjá fleiri og fleiri fara út í þetta nám,“ bætir Tinna við.

Verkefnin sem Tinna og Darío sinna fyrir Verkís eru mjög fjölbreytt. Tinna hefur mikið unnið við lýsingarhönnun í grunnskólum og leikskólum en líka í virkjunum, sem hún segir vera mjög ólíkt vinnu við skólana. Darío hefur aftur á móti unnið mikið við hönnun á útilýsingu. „Við vinnum líka oft saman, til dæmis í skrifstofuhúsnæði, bæði nýbyggingum og við endurhönnun. Við erum oft að endurskoða verkefni sem krefjast umhverfisvottunar,“ segir hann og Tinna bætir við: „Við erum líka búin að vinna að verkefnum í Noregi og Grænlandi. Það er alltaf nóg að gera hjá okkur, sem betur fer.“

Elsta verkfræðistofan

Verkís var rekur uppruna sinn til ársins 1932 og er því elsta verkfræðistofa landsins. „Í níutíu ár hefur okkur verið treyst til að koma hugmyndum í framkvæmd, því höfum við fengið tækifæri til að afla okkur dýrmætrar þekkingar og reynslu,“ segir Egill Viðarsson, framkvæmdastjóri Verkís. Verkís veitir ráðgjöf og þjónustu á öllum sviðum verkfræði og skyldum greinum.

Í flestum stórframkvæmdum innanlands hefur sérfræðiþekking Verkís komið við sögu. „Okkar hugsjón er að byggja upp samfélög en við höfum meðal annars komið að gerð íþróttamannvirkja, menntastofnana, heilbrigðisstofnana og samgönguinnviða á borð við brýr, vegi, flugvelli og hafnir,“ segir Egill. Hjá Verkís starfa rúmlega 350 manns á 13 starfsstöðvum um allt land.

Heimsmarkmið

Darío Gustavo Núñez Salazar og Tinna Kristín Þórðardóttir
Darío Gustavo Núñez Salazar og Tinna Kristín Þórðardóttir