14/06/2019

Gróðureldar – hagnýt ráð

Gróðureldar - hagnýt ráð

Hagnýt ráð til sumarhúsaeigenda vegna gróðurelda.

Áður fyrr voru sumarhúsasvæði aðallega á bersvæði en nú eru mörg þeirra í þéttu kjarri. Gróður vex hraðar vegna betri vaxtarskilyrða og áhugi á gróðursetningu hefur einnig aukist til muna. Ógrisjaður, þéttur skógur getur verið illfær vegna þess að greinar hans eru samfléttaðar frá skógarbotni og upp úr. Slíkur skógur getur verið varasamur með tilliti til gróðurelda.

Þann 11. júní sl. lýsti ríkislögreglustjóri, í samráði við lögreglustjórann á Vesturlandi, yfir óvissustigi almannavarna vegna hættu á gróðureldum. Sérstök hætta er talin vera á eldum í Skorradal. Gróðureldar eru sem betur fer ekki algengir á Íslandi en geta verið illviðráðanlegir ef eldur berst í þurran gróður. Eldur og reykur getur stefnt lífi fólks í hættu og
valdið verulegu eignartjóni. Rétt viðbrögð og forvarnir geta þá skipt sköpum.

Í langvarandi þurrkum getur lítill neisti kveikt mikinn eld. Forðast þarf alla meðferð elds á gróðursvæðum og bleyta gróður næst húsi. Sérstaka aðgát skal sýna við vélavinnu. Dæmi eru um gróðurbruna hér á landi út frá sígarettum, flugeldaum, bílvélum og einnota útigrillum.

Fyrstu viðbrögð við gróðureldi er að hringja í Neyðarlínuna 112, greina frá því hvar eldurinn er og lýsa staðsetningu og staðháttum. Láttu fólk í nágrenninu sem kynni að vera í hættu strax vita. Leggðu mat á aðstæður og reyndu að slökkva eldinn sem fyrst ef aðstæður leyfa án þess að taka áhættu.

Hér eru nokkur hagnýt ráð frá
Verkís til sumarhúsaeigenda:

  • Gerðu áætlun um hvað þú gerir ef eldur kemur upp. Kynntu þér leiðir fyrir akandi ognfótgangandi út af svæðinu, ef til vill eru þær fleiri en ein. Ákveða hvar
    safnast skal saman ef neyðarástand skapast. Athugaðu hvar örugg svæði eru í nágrenninu, vötn eða gróðursnauð svæði.
  • Hreinsa gróður frá verönd sumarhússins og huga að öryggissvæði allt að 1,5 m umhverfis hús, þar sem gróðri er haldið í lágmarki. Hreinsa rusl og eldfim efni undan verönd sumarhúsa. Geyma bensín á sláttuvél, gaskúta og áburð í sérstakri geymslu.
  • Skynsamlegt er að hafa viðbragðsbúnað á borð við garðslöngu sem nær tvo hringi í kringum húsið, eldklöppur eða nornakústa, góða hanska, rykgrímu og vinnugalla (ekki föt úr gerviefni sem eru eldfim).
  • Ekki má gleyma eldvörnum innandyra, þ.e. rykskynjurum, slökkvitæki, eldvarnarteppi og greiðum flóttaleiðum.
  • Útvega fastanúmer fyrir sumarhúsið hjá Landssambandi sumarhúsaeigenda.
  • Kynna sér viðbrögð á heimasíðu almannavarna og á grodureldar.is.

Bæklingurinn Gróðureldar – Forvarnir og fyrstu viðbrögð var gefinn út í fyrra og
heimasíðan grodureldar.is opnuð samhliða því.

Gróðureldar - hagnýt ráð