07/05/2019

Hjólað í vinnuna – nokkur ráð

Hjólað í vinnuna - nokkur ráð

Ert þú alltaf á leiðinni að byrja að hjóla í vinnuna en hefur ekki enn komið þér af stað? Sumir segja að það taki þrjár vikur að festa nýja venju í sessi, með því að framkvæma hana á hverjum degi í tuttugu og einn dag. Ef það er rétt, þá er heilsu- og hvatningarverkefnið Hjólað í vinnuna eitthvað fyrir þig.

Í þrjár vikur ár hvert hjóla margir samviskusamlega í vinnuna á hverjum degi í von um að vinnustaðurinn þeirra standi uppi sem sigurvegari í lok maí. Verkís var í þriðja sæti í fyrra og stefnum við að sjálfsögðu enn hærra í ár.

Hér eru nokkrir punktar fyrir þau sem ætla að hjóla í vinnuna:

1. Mundu eftir að nota hjálm. Það er ekki nóg að vera með hjálm, heldur þarf að gæta þess að hann sitji beint ofan á höfðinu. Hjálmurinn ætti að sitja þétt svo hann detti hvorki af né skekkist þegar á reynir. Mér finnst líka mikilvægt að nota góða vettlinga. Meira um öryggisbúnað hér.

2. Hvaða leið er best að faraHér er linkur á hjólavefsjá þar sem hægt er að skoða nokkrar hentugar leiðir frá A til B og hversu langan tíma ætti að taka að hjóla þær.

3. Taktu til föt og annan búnað kvöldið áður. Það er miklu auðveldara að drífa sig af stað á morgnana ef fötin, hjálmurinn, nestið og annar farangur er tilbúinn. Og líklegra að maður muni eftir öllu. Gott er að vera búin/n að skoða veðurspána og taka til klæðnað í samræmi við hana.

4. Sýndu tillitssemi á stígunum. Það er góð regla að sýna tillitssemi á göngu- og hjólastígum, sérstaklega þegar fer að vora og umferð eykst. Stundum eru stígarnir sameiginlegir en umferð aðskilin með merkingum. Mjög mikilvægt að fara eftir þeim. Lykilatriði er að líta vel í kringum sig og láta vita af sér með bjöllu þegar maður ætlar að fara framhjá öðrum.

5. Mundu eftir að læsa hjólinu. Hversu mikið myndir þú sakna hjólsins ef því yrði stolið? Töluvert? Þá borgar sig að vanda valið á lás, muna eftir læsa hjólinu og geyma það inni ef hægt er. Allar hjólreiðaverslanir selja lása og þar er hægt að fá góðar leiðbeiningar við kaupin.

6. Hjólahjálmar hafa takmarkaðan líftíma. Innan á hjálminum eiga að vera upplýsingar um framleiðslutíma hans. Endingartími hjálmsins er fimm ár frá framleiðsludegi. Mælt er með því að geyma hjálma þar sem sólarljós nær ekki til þeirra þar sem það getur stytt endingartímann.

Ég hvet þig eindregið til þess að taka þátt í Hjólað í vinnuna í ár. Vonandi verður þátttakan til þess að þú haldir áfram að hjóla eða nýta þér aðrar vistvænar samgöngur, bæði til og frá vinnu og í öðrum ferðum hversdagsins. Gangi þér vel og farðu endilega varlega.

Hjólað í vinnuna - nokkur ráð