25/02/2021

Kynna hugmyndir um nýtt 20 þúsund manna hverfi

Höfðinn yfirlitsmynd
Höfðinn yfirlitsmynd

Í dag verður bein útsending á vegum Reykjavíkurborgar til að kynna hugmyndir um nýtt 20.000 manna hverfi á Ártúnshöfða og við Elliðaárvog. Verkís hefur komið að verkefninu á ýmsa vegu frá árinu 2015.

Hugmyndir um að breyta gamalgrónu iðnaðarhverfi í lifandi og græna íbúðabyggð verða kynntar áður en deiliskipulag fer í formlegt ferli til að fá fram sjónarmið íbúa og fyrirtækja. Gert er ráð fyrir að deiliskipulag fari í auglýsingu í apríl og þá tekur við lögbundið ferli.

Áætlað er að á svæðinu rísi allt að átta þúsund íbúðir og þrír grunnskólar í fullbyggðum borgarhluta í bland við þjónustu og aðra atvinnustarfsemi á næstu árum. Hryggjarstykki uppbyggingarinnar er meðfram fyrirhugaðri Borgarlínu sem liggur í gegnum mitt skipulagssvæðið.

Verkís hefur komið að verkefninu á ýmsa vegu frá árinu 2015, m.a. gatnahönnun, umferðarmálum, lagnahönnun, hönnun blágrænna ofanvatnslausna, gerð umhverfismats, mengunarrannsóknum, jarðtæknirannsóknum og hönnun hljóðvistar. Anna Guðrún Stefánsdóttir, umferðar- og skipulagsverkfræðingur hjá Verkís, verður á fundinum í dag og ræðir umferðarmál.

Útsendingin hefst kl. 17.00 á kynningarsíðu verkefnisins skipulag.reykjavik.is og byggist dagskrá á stuttum kynningum fjölmargra sem komið hafa að verkefninu til þessa.

Frétt á vef Reykjavíkurborgar: Höfðinn – Nýtt hverfi í mótun

Höfðinn yfirlitsmynd
Höfðinn yfirlitsmynd