05/04/2022

Undirrituðu samning um nýtt hús Heilbrigðisvísindasviðs HÍ

Undirritun húss HVS 5april2022
Frá vinstri: Hrafnhildur Ólafsdóttir, Ivon Stefán Cilia, Egill Viðarsson, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, Jón Atli Benediktsson, Runólfur Pálsson og Inga Þórsdóttir. Ljósmynd/Kristinn Ingvarsson.

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir háskóla-, nýsköpunar- og iðnaðarráðherra, Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, og Egill Viðarsson framkvæmdastjóri Verkís, Ivon Stefán Cilia og Hrafnhildur Ólafsdóttir frá ráðgjafateymi sem samanstendur af Verkís, TBL arkitektum ehf. og John Cooper Architecture, undirrituðu í dag samning um fullnaðarhönnun á nýju húsi fyrir starfsemi Heilbrigðisvísindasviðs Háskóla Íslands.

Auk þess vottuðu Inga Þórsdóttir, forseti Heilbrigðisvísindasviðs, og Runólfur Pálsson, forstjóri Landspítala, samninginn.

„Hús sem styrkir enn frekar aðstöðu til menntunar heilbrigðisstarfsmanna til heilla fyrir land og þjóð. Verkís byggir upp samfélög,“ sagði Egill, framkvæmdastjóri Verkís, við tilefnið.

Hópur undir forystu Verkís varð hlutskarpastur í lokuðu útboði sem haldið var vegna hönnunar hússins. Hópinn skipa Verkís, John Cooper Architecture og TBL arkitektar sem samanstanda af fyrirtækjunum T.ark arkitektum ehf., Batteríinu sf. og Landslagi ehf.

Frá undirritun og staðfestingu samningsins.

Frá undirritun og staðfestingu samningsins. 

Með nýbyggingunni, sem verður um 8.300 fermetrar, er ætlunin að sameina nær alla starfsemi Heilbrigðisvísindasviðs HÍ á einum stað. Nýbyggingin mun tengjast Læknagarði sem verður jafnframt endurgerður. Húsnæðið verður sérhannað miðað við þarfir sviðsins, kennslu- og rannsóknaaðstaða verður bætt og færð í nútímalegt horf og samnýting og sveigjanleiki verður aukinn til muna. Húsið Eirberg, sem Hjúkrunarfræðideild HÍ hefur notað um árabil, verður nýtt áfram af sviðinu, meðal annars undir kennslu, færnibúðir og nemendaaðstöðu, og þá verður Sálfræðideild áfram með starfsemi í Nýja Garði.

JAB og EGV við undirritun Hús heilbrigðisvísindasviðs HÍ
Jón Atli Benediktsson, rektor HÍ og Egill Viðarsson, framkvæmdastjóri Verkís.

Byrjað verður á að reisa nýbygginguna og verður starfsemin flutt í hana áður en hafist verður handa við endurgerð Læknagarðs. Er það gert til að halda samfellu í starfi Heilbrigðisvísindasviðs. Áætlað er að framkvæmdir við nýbygginguna geti hafist í byrjun næsta árs og að hún verði tilbúin til notkunar um mitt ár 2025. Áætlað er að endurbótum á Læknagarði ljúki í árslok 2027.

Í frétt HÍ má lesa það sem Áslaug Arna, Jón Atli, Egill, Inga og Runólfur höfðu að segja í tilefni af undirrituninni.

Nýtt hús Heilbrigðisvísindasviðs HÍ rís á næstu þremur árum | Háskóli Íslands (hi.is)

Heimsmarkmið

Undirritun húss HVS 5april2022
Frá vinstri: Hrafnhildur Ólafsdóttir, Ivon Stefán Cilia, Egill Viðarsson, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, Jón Atli Benediktsson, Runólfur Pálsson og Inga Þórsdóttir. Ljósmynd/Kristinn Ingvarsson.