16/02/2023

Stofnfundur WHISPER fór fram í höfuðstöðvum Verkís

Stofnfundur WHISPER fór fram í höfuðstöðvum Verkís
Að verkefninu stendur fjölbreytt teymi 14 fyrirtækja í sex Evrópulöndum

Stofnfundur WHISPER fór fram í höfuðstöðvum Verkís. Í byrjun febrúar fór fram stofnfundur orkuskiptaverkefnisins WHISPER þar sem allir aðilar verkefnisins komu saman í fyrsta sinn á þriggja daga vinnufundi í höfuðstöðvum Verkís í Ofanleiti til að skipuleggja starf næstu missera og telst verkefnið nú formlega hafið. Að verkefninu stendur fjölbreytt teymi 14 fyrirtækja í sex Evrópulöndum og var umsóknarferlinu, sem var bæði flókið og umfangsmikið, stýrt í gegnum íslenska fyrirtækið Evris. Verkís leiðir verkefnið. Fjallað er um verkefnið í Fiskifréttum.

„Það er mikill heiður að fá það hlutverk að stýra verkefninu því Evrópusambandið gerir miklar kröfur um reynslu og faglega verkefnastjórnun í verkefnum af þessari stærðargráðu,“ segir Carine Chatenay, verkefnastjóri WHISPER hjá Verkís. Auk þess að leiða verkefnið mun Verkís sjá um tæknilega verkefnastjórnun, vistferilsgreiningar og loftaflfræðilegar hermanir.

WHISPER hlaut nýverið 1,4 milljarða króna styrk til fjögurra ára frá nýsköpunarsjóði ESB, Horizon Europe. WHISPER er fjölþjóðlegt samstarfsverkefni en íslensk fyrirtæki eru þar í burðarhlutverkum. Gangi áætlanir verkefnisins eftir er talið að hægt verði að draga úr eldsneytisnotkun tankskipa um tæp 30% og gámaskipa um 15%.

Verkefninu er ætlað að þróa og prófa nýsköpunarlausnir í orkuskiptum á sjó sem geta dregið verulega úr losun gróðurhúsaloftegunda hjá flutningaskipaflota heimsins,“ útskýrir María Kristín Þrastardóttir, annar stofnenda nýsköpunarfyrirtækisins Sidewind.Það er ein af þremur tæknilausnum sem verkefnið snýr að. María Kristín segir lausnirnar felast í endurbótum á gáma- og tankskipum sem eru nú þegar í rekstri.

Í fyrsta lagi með blandaðri sólar- og vindorkutækni þar sem láréttar vindmyllur SideWind og sérhannaðar sólarorkusellur Solbian framleiða raforku fyrir innri orkunotkun skipanna. Í öðru lagi verða þróuð rafstýrð segl á vegum franska fyrirtækisins Ayro, sem hjálpa til við að knýja skipin áfram. Samhliða verður einnig unnið að geymslulausnum fyrir rafmagn. Um 80-90% vöruflutninga í heiminum eru með flutningaskipum og fara vaxandi. Skipaflutningar losa 2,5% gróðurhúsalofttegunda á heimsvísu. Því er til mikils að vinna og getur verkefnið haft mikið að segja þegar kemur að orkuskiptum á sjó.

Að verkefninu stendur fjölbreytt teymi 14 fyrirtækja í sex Evrópulöndum og var umsóknarferlinu, sem var bæði flókið og umfangsmikið, stýrt í gegnum íslenska fyrirtækið Evris. Auk Verkís og Sidewind eru íslensku fyrirtækin Samskip, BBA//FJELDCO og Athygli þátttakendur í verkefninu. Erlendir þátttakendur eru Canoe, Ayro og Stirling Design frá Frakklandi, Solbian, Ant Topic og Dotcom frá Ítalíu, Nav-Tech frá Hollandi, Lloyds Register frá Bretlandi og Inspiralia GmbH frá Austurríki.

Hluti verkefnisins felst í því að prufusigla lausnirnar og sýna þannig fram á að þær séu bæði hentugar og skili þeim árangri sem til er ætlast við raunskilyrði. Fyrst verða vindtúrbínur SideWind og sólarsellur prófaðar á Arnarfelli, gámaskipi Samskips, en síðar verða allar lausnirnar prófaðar saman á tankskipi á vegum Ant Topic.

Heimsmarkmið

Stofnfundur WHISPER fór fram í höfuðstöðvum Verkís
Að verkefninu stendur fjölbreytt teymi 14 fyrirtækja í sex Evrópulöndum