21/12/2020

Verkís kolefnisjafnar með endurheimt votlendis

Í lok árs 2015 skrifaði Verkís undir loftslagsyfirlýsingu Festu og Reykjavíkurborgar og setti sér markmið í loftslagsmálum á grundvelli hennar. Liður í því er að mæla kolefnisspor fyrirtækisins og kolefnisjafna fyrir þá losun sem ekki hefur verið hægt að draga úr.

Í samræmi við loftslagsyfirlýsinguna var markmiðið að jafna 50% losunar ársins 2016, 60% losunar 2017 og auka síðan jafnt og þétt þetta hlutfall upp í 100% . En strax frá upphafi hefur Verkís jafnað út 100% losunarinnar. Fyrstu tvö árin var það gert með skógrækt en starfsfólki Verkís var útvegað trjáplöntur sem gróðursettar voru um allt land. Alls hafa verið gróðursettar ríflega 10.000 trjáplöntur í þessu skyni. 

Með samstarfinu við Votlendissjóð um kolefnisjöfnun fyrir undanfarin tvö ár leggur Verkís sitt af mörkum við það markmið sjóðsins að færa land til fyrra horfs. Votlendissjóður hefur það hlutverk að vinna að því að draga úr losun koldíoxíðs með endurheimt votlendis og vera milliliður milli þeirra sem eiga framræst land og vilja endurheimta það og þeirra sem vilja leggja til fjármagn eða vinnu til að láta endurheimta votlendi.

Samgöngur eru langstærsti þátturinn í kolefnisspori Verkís, einkum flugferðir, bæði innanlands og utan, en einnig akstur vegna verkefna. Raforka og orka til húshitunar hefur sáralítil áhrif á kolefnissporið. Kolefnissporið sveiflast talsvert á milli ára og endurspeglar þannig vel verkefnisstöðuna og ekki síður hvar verið er að vinna. 

Árið 2016 var losunin 407 tonn í CO2 ígildum en hafði lækkað um fjórðung árið eftir í 303 tonn vegna fækkunar utanlandsferða sem endurspeglast aðallega af verkefnisstöðunni í Noregi. Árið 2018, þegar talsverður þungi var í vinnu við Þeystareykjavirkjun og Bakka jókst losunin upp í 351 tonn og lækkaði síðan aftur í 312 tonn í fyrra. En fjölgun raf- og tvinnbíla í flota Verkís hefur einnig haft talsverð áhrif á að minnka kolefnissporið og ekki síður aukin vitund starfsmanna og vilji til að leggja sitt af mörkum.

Það verður síðan fróðlegt að sjá hvað kolefnissporið verður fyrir líðandi ár sem hefur að öllu leyti verið frábrugðið því sem við eigum að venjast hvað varðar ferðir vegna verkefna. Ekki er ólíklegt að niðurstaðan staðfesti hið fornkveðna að hvað sem líður ferðamáta er umhverfisvænasta ferðin, sú sem ekki er farin.

Verkís skilar sjálfbærniskýrslu í annað sinn

Fyrri ljósmyndin tengist fréttinni ekki beint en er frá endurheimt votlendis í Úlfarsárdal. 
Seinni ljósmyndin er skjal með viðurkenningu fyrir kolefnisjöfnunina 2019. 

Heimsmarkmið

  • Heimsmarkmið 15

Endurheimt votlendis í Úlfarsárdal
dji_0015