16/01/2020

Hægt að læra margt af flóðunum með nýrri tækni

Hægt að læra margt af flóðunum
Flateyri

Hægt að læra margt af flóðunum með nýrri tækni. Tvö stór snjóflóð féllu á Flateyri við Önundarfjörð að kvöldi 14. janúar sl. Annað þeirra féll úr Skollahvilft og hitt úr Innra-Bæjargili. Bæði flóðin fóru að hluta yfir snjóflóðavarnargarðana í hlíðinni fyrir ofan Flateyri. Þá féll einnig snjóflóð í Súgandafirði við Norðureyri um sama leyti.

Tvö stór snjóflóð féllu á Flateyri við Önundarfjörð að kvöldi 14. janúar sl. Annað þeirra féll úr Skollahvilft og hitt úr Innra-Bæjargili. Bæði flóðin fóru að hluta yfir snjóflóðavarnargarðana í hlíðinni fyrir ofan Flateyri. Þá féll einnig snjóflóð í Súgandafirði við Norðureyri um sama leyti.

Flóðið úr Innra-Bæjargili fór að hluta til á íbúðarhús að Ólafstúni 14 og lenti unglingsstúlka í flóðinu. Tókst að bjarga henni eftir fjörutíu mínútur og slapp hún án alvarlegra líkamlegra áverka.

Fyrir tuttugu og fimm árum, 26. október 1995, féll stórt snjóflóð á byggðina á Flateyri. Flóðið féll að nóttu til og létu tuttugu manns lífið. Í kjölfarið var ákveðið að reisa snjóflóðavarnargarð í hlíðinni fyrir ofan byggðina og var verkfræðistofan VST, nú Verkís, fengin til verksins árið 1997.

Í frétt á vefsíðu Veðurstofu Íslands segir að út frá þeim upplýsingum sem liggja nú fyrir er áætlað að flóðin á Flateyri 14. janúar sl. kunni að vera sambærileg að stærð við flóðið sem féll úr Skollahvilft í október 1995. Flóð yfir varnargarðana á tveimur stöðum nú kalli á endurmat á virkni varnargarðanna á Flateyri og þá um leið endurskoðun á hættumati sem gert var 2004.

Vildu hafa varnargarðinn mun hærri en almennt tíðkaðist

Flosi Sigurðsson, byggingarverkfræðingur og viðskiptastjóri á Byggingarsviði Verkís, er einn af aðalhönnuðum snjóflóðavarnargarðanna á Flateyri. Rætt var við hann í kvöldfréttum RÚV í gærkvöldi. Fyrir flóðin gerðu ítrustu kröfur ráð fyrir að 12-15 metra hár garður myndi duga til að vernda byggðina. Flosi segir að við hönnun varnanna hafi verið leitað til sérfræðinga á sviði ofanflóðavarna í Noregi, Austurríki, Sviss og víðar.

„Og við gerðum í raun miklu meiri kröfur heldur en almennt tíðkuðust í snjóflóðavörnum í Evrópu á þeim tíma. En eftir þessi mannskæðu snjóflóð 1994 og 1995 þá var þetta virkilega tekið af alvöru og Íslendingar settu sig í fararbrodd í kröfugerð um hættumat vegna snjóflóða. Og miðað við þessar breyttu forsendur sem við bjuggum okkur til eftir flóðin þá náðum við því í gegn að þessi varnargarður yrði 18-20 metra hár þar sem hann er hæstur,“, sagði Flosi í samtali við RÚV.

Fara til Flateyrar í dag til að kanna aðstæður

Kristín Martha Hákonardóttir, byggingarverkfræðingur og doktor í straumfræði á Orkusviði Verkís, fer til Flateyrar í dag til að kanna aðstæður. Rætt var við hana í Speglinum á Rás 1 og í tíufréttum RÚV í gær.

Flóðin verða mæld upp með dróna sem búinn er sérstökum skanna. Með nýrri tækni er unnt að mæla upp flóðin mun nákvæmar en nokkru sinni fyrr. Hún segir unnt að læra gríðarlega margt af flóðunum með nýrri tækni.

„Kannski það mikilvægasta sem við munum læra er um takmarkanir í reiknilíkönunum okkar. Nú munum við herma þessi flóð í að minnsta kosti tveimur mismunandi reiknilíkönum og sjá hverju við getum treyst þar og hverju ekki. Það á eftir að koma í ljós hvort eitthvað af flóðinu sem féll deginum áður á varnargarðinn og kom úr Innra-Bæjargili hafi verið ennþá ofan við garðinn og hugsanlega haft áhrif á garðinn og hvernig þetta flóð flæddi yfir garðinn,“ sagði Kristín Martha í samtali við RÚV.

Kristín Martha telur hugsanlegt að annað flóð hafi fallið úr Innra-Bæjargili fyrr um daginn 14. janúar og búið til eins konar stökkpall fyrir það næsta. Við hönnun varnargarða er ekki gert ráð fyrir að fleiri en eitt flóð falli á þá með stuttu millibili. Hún telur þörf á því að endurskoða varnargarðana á Flateyri.

„Alls staðar þar sem kemur í ljós að hættusvæði eru neðan við varnir í byggð, kannski eftirá, þá eru varnirnar endurskoðaðar en það verður kannski ekki farið í gagngera endurskoðun á því hvernig og hvort breyta eigi garðinum hérna því það á eftir að byggja varnir á svo mörgum stöðum á Íslandi. Það er mögulega brýnna, forgangsröðunin hefur að minnsta kosti verið svoleiðis,“ sagði Kristín Martha í samtali við Spegilinn.

Skoruðu á ríkisstjórnin að ljúka uppbyggingu ofanflóðavarna

Í viðtali við mbl.is vakti hún athygli á áskorun sem send var ríkisstjórn Íslands í maí á síðasta ári af sérfræðingum á sviði ofanflóðavarna auk fulltrúa sveitarfélaga sem hagsmuna hafa að gæta í þessum efnum þar sem hvatt var til þess að ljúka uppbyggingu ofanflóðavarna sem fyrst en upp­haflega var gert ráð fyrir því að þeim áfanga yrði náð 2010. Minnti hún á að Ofanflóðasjóður hafi verið stofnaður 1997 til þess að ljúka mætti uppbyggingu ofanflóðavarna hratt

Í áskoruninni sagði meðal annars að undanfarna tvo áratugi
hafi verið unnið að uppbyggingu ofanflóðabarna víða á landinu. Það sé í samræmi
við stefnu sem mörkuð var eftir mannskæð snjóflóð á Flateyri og Súðavík 1995. Upphaflega
hafi verið markmiðið að ljúka þessari uppbyggingu á hættulegustu svæðunum fyrir
árið 2010. Markmiðinu var frestað til 2020 og þegar hópurinn sendi áskorunina
frá sér var fyrirhugað að fresta uppbyggingunni aftur, eða til ársins 2030.

Verkefni: Snjóflóðavarnir á Flateyri
Um þjónustu Verkís á sviði ofanflóðavarna

Hægt að læra margt af flóðunum
Flateyri