20/09/2021

Hugvekja um sjálfbærni mannvirkja

Hugvekja um sjálfbærni mannvirkja
Sjálfbærni bygginga

Hugvekja um sjálfbærni mannvirkja. Dagana 20. – 24. september er vika tileinkuð vistvænni mannvirkjagerð (e. World Green Building Week) haldin um allan heim til að vekja athygli á áhrifum byggingariðnaðarins á vistkerfi jarðar og hvernig sjálfbærari byggingariðnaður getur lagt sitt af mörkum til að lágmarka slík áhrif.

Sjálfbærari byggingariðnaður bætir einnig heilsu, velsæld og hagsæld fólks og samfélaga. Þema vikunnar í ár er Seigla og aðlögunarhæfni mannvirkja (e. Building Resilience) þar sem fjallað verður um þau fjölmörgu tækifæri byggingariðnaðarins til þess að leggja sitt af mörkum til þeirra 17 sjálfbærnimarkmiða sem Sameinuðu Þjóðirnar hafa sett fram. Staðan í dag er sú að mannvirki eru ábyrg fyrir um 40% af allri losun gróðurhúsalofttegunda og 50% af nýtingu náttúruauðlinda heimsins1. Jafnframt búa um 90% af jarðarbúum í mengandi umhverfi, hvort sem er úti við eða innandyra2.

Ábyrgð byggingariðnaðarins er því mikil, og þær ákvarðanir sem við tökum í dag hafa áhrif um ókomna tíð. Teknar eru ákvarðanir um landnotkun, skipulag, gerð mannvirkja, orkunýtingu og hvers kyns nýtingu auðlinda sem landið gefur. Þessar ákvarðanir geta skert lífsgæði komandi kynslóða. Við höfum einnig vísindalega vitneskju um hvernig ofnýting auðlinda, sóun og mengun hefur áhrif á vistkerfi jarðar og hvaða þýðingu hrörnun vistkerfisins og loftslagsbreytingar hafa fyrir okkur og komandi kynslóðir.

Sem betur fer erum við nokkuð klár. Gáfaðar skepnur. Við kunnum að lesa okkur til gagns, afla okkur upplýsinga, þróa betri lausnir og auka lífsgæði okkar með nýtingu þeirra. Við kunnum að skapa nýjar lausnir og gera betur í dag en í gær. Nýta tæknina, nýta stafræna þróun, nýta vísindin. En það er líka ríkt í okkur að treysta á gamalgrónar lausnir, þær sem staðist hafa tímans tönn og eru sannreyndar. Stundum eru slíkar lausnir þó óþarflega frekar á orku og auðlindir og valda mengun, og skaða þar með tækifæri komandi kynslóða til þess að lifa jafngóðu lífi og við höfum fengið að gera.

Innan Verkís býr gríðarleg reynsla og sérfræðiþekking á hinu byggða umhverfi. Á öllum fagsviðum byggingariðnaðarins hefur átt sér stað framþróun sem miðar að því að minnka sóun, framleiða hráefni og vörur með betri hætti en áður, með minni umhverfisáhrifum og bættum líftíma. Öryggismál og virðing fyrir heilsu og lífi er ófrávíkjanleg krafa nútímans og hluti af sjálfsagðri menningu vinnustaða í dag. Skipuleggja má framkvæmdir með betri og umhverfisvænni hætti en áður. Hönnun mannvirkja þarf einnig að miða að heilbrigðu samhengi milli hins byggða umhverfis og náttúru, veðurþoli og rakavörnum, dagsljósahlutfalli, lágmörkun á viðhaldsþörf og auknum líftíma.

Um heim allan er jafnframt lögð aukin áhersla á að lágmarka orkunotkun og bæta orkunýtingu mannvirkja og framleiðsluferla. Bætt orkunýting er ekki síður mikilvæg á Íslandi. Þó landið búi yfir ríku aðgengi að endurnýjanlegri og hreinni orku í formi rafmagns og varma frá vatnsafli og jarðhita, er ekki ásættanlegt að sóa þeirri orku sem framleidd er með verðmætum náttúruauðlindum. Bera þarf virðingu fyrir orkuauðlindum landsins með ábyrgri nýtingu þeirra í allri virðiskeðjunni, allt frá framleiðslu orkunnar til notkunar hennar í daglegu lífi.

Verkís nýtir sérþekkingu sína til að bjóða upp á sjálfbærari lausnir til framtíðar. Við skuldbindum okkur til að taka ákvarðanir í dag sem stuðla að því að hið byggða umhverfi sé traust, standist gæða-, öryggis- og umhverfiskröfur og bæti velsæld samfélagsins okkar.

Þjónusta Verkís: Sjálfbærni mannvirkja.

 • Marta Rós Karlsdóttir
 • Fagleiðtogi sjálfbærni
 • Svið: Samgöngur og umhverfi
 • mrk@verkis.is
 • Einar Jónsson
 • Skipulagsfræðingur
 • Svið: Samgöngur og umhverfi
 • eij@verkis.is
 • Elín Vignisdóttir
 • Landfræðingur M.Sc.
 • Svið: Samgöngur og umhverfi
 • ev@verkis.is
 • Haukur Þór Haraldsson
 • Líffræðingur / Viðskiptastjóri
 • Svið: Samgöngur og umhverfi
 • htoh@verkis.is
 • Hugrún Gunnarsdóttir
 • Fiskifræðingur M.Sc. / Viðskiptastjóri
 • Svið: Samgöngur og umhverfi
 • hug@verkis.is
 • Ragnar Ómarsson
 • Byggingafræðingur
 • Svið: Byggingar
 • rom@verkis.is
 • Þórey Edda Elísdóttir
 • Umhverfisverkfræðingur
 • Svið: Starfsstöðvar
 • tee@verkis.is

1World Green Building Council. Building Resilience for climate, people and economies. September 2021.

2World Health Organisation (WHO). Air Pollution. https://www.who.int/health-topics/air-pollution#tab=tab_1. September 2021.

Hugvekja um sjálfbærni mannvirkja
Sjálfbærni bygginga