Sjálfbærni mannvirkja

Sjálfbærni mannvirkja

 • Vigdísar hús

Verkís veitir ráðgjöf vegna sjálfbærni mannvirkja með forsendur heilbrigðs samfélags að leiðarljósi þar sem hönnun og bygging mannvirkja taka mið af umhverfi og rekstrarhagkvæmni þeirra.

Í ráðgjöfinni er horft til þriggja þátta: Vistvænnar hönnunar til að vega á móti umhverfisáhrifum mannvirkisins á líftíma þess, lífsferilsgreininga til að draga úr fjárhagslegri sóun og samfélagsgreininga til að viðhalda öryggi og þægindum notanda án þess að það bitni á umhverfi og fjárhag. 

Vistvæn hönnun snýst um lausnir sem draga úr væntanlegu kolefnisfótspori mannvirkis, bæði vegna losunar gróðurhúsalofttegunda við framleiðslu byggingarefna og notkun orkugjafa á byggingartíma og í viðhaldi mannvirkja og einnig vegna orkunotkunar á rekstrartíma mannvirkja. Vistvænar lausnir byggja á nákvæmri greiningu á kolefnisfótspori á meðan hönnun mannvirkis á sér stað sem gerir kleift að velja umhverfisvæna kosti og lágmarka þannig losun gróðurhúsalofttegunda.

Lífsferilsgreiningar snúast um að skoða hver séu umhverfisleg, fjárhagsleg og samfélagsleg áhrif vegna undirbúnings, uppbyggingar, afnota, viðhalds og niðurrifs mannvirkis á öllum líftíma þess. með lífsferilsgreiningunni má sjá fyrir væntanlega sóun á fjármunum og gerir kleyft að grípa til viðeigandi sparnaðaraðgerða áður en mannvirkið er reist.

Samfélagsgreiningar snúast um að greina valmöguleika sem hafa það að markmiði að hámarka þægindi og gæði notenda mannvirkja og styðja þannig undir ákvarðanir sem teknar eru varðandi þessa eiginleika.

Einn af meginþáttum ráðgjafar á sviði sjálfbærni mannvirkja er að veita viðskiptavinum upplýsingar um hvernig þessir þrír þættir tengjast saman og hafa áhrif innbyrðis. Með reynslu sinni og þekkingu á öllum þáttunum getur Verkís boðið heildstæða ráðgjöf sem tryggir að niðurstaðan falli að markmiðum viðskiptavinarins.

Byggingariðnaðurinn er ábyrgur fyrir um 39% af allri kolefnislosun mannsins á heimsvísu. Losunin er tvíþætt, annars vegar kolefnislosun sem er bundin í mannvirkinu sjálfu á byggingartíma þess og hins vegar losun vegna reksturs mannvirkisins á líftíma þess. Innbyggða losunin er það kolefni sem er losað við öflun hráefna og meðhöndlun og framleiðslu byggingarefna, flutning þeirra á byggingarstað, uppbyggingu mannvirkisins, niðurrif þess að loknum líftíma ásamt úrgangsmeðhöndlun og endurvinnslu. Kolefnið sem losnar við rekstur mannvirkis, á líftíma þess, er t.d. vegna loftræsingar, húshitunar, rafmagnsnotkunar og viðhalds mannvirkisins.

Lykilatriði í öllum áætlunum fyrir mannvirkjagerð er að áætlunin nái yfir allan líftíma mannvirkisins, frá fyrstu hugmynd og þar til fyrirsjáanlegt sé að hætta þurfi notkun mannvirkisins. Mikilvægt er að horft sé lengra en aðeins til byggingar mannvirkja, þau lifa áfram og því þarf að skoða áhrif þeirra fram í tímann.

Þegar hús er komið á þann stað á lífsferlinum að það þjónar ekki lengur tilgangi sínum þarf að finna leiðir til þess að nýta mannvirkið á annan hátt eða nýta byggingarefni þess með öðrum hætti til þess að spara það bundna kolefni sem þegar er til staðar í húsinu. Aukin áhersla á sjálfbærni mannvirkja er mjög mikilvægt skref í baráttunni við yfirvofandi loftlagsbreytingar.

Hafi viðskiptavinur þörf fyrir að staðfesta sjálfbærni mannvirkis má gera slíkt með því að fá mannvirkið vottað í samræmi við staðlaða vottunaraðila s.s. BREEAM eða Svaninn. Verkís hefur dýrmæta reynslu af slíkum vottunarferlum og getur veitt viðskiptavinum sínum alla þá ráðgjöf sem þörf er á, hvort sem um er að ræða nýframkvæmd eða mannvirki sem þegar er í notkun.

Verkís er stofnaðili að Grænni byggð sem er vettvangur fyrirtækja, stofnana og rannsóknaraðila fyrir sjálfbæra þróun í byggingargerð.

Bæklingur um eðlisfræði bygginga og orkubúskap þeirra.

Elin_vignis

 • Elín Vignisdóttir
 • Landfræðingur M.Sc.
 • Svið: Samgöngur og umhverfi
 • ev@verkis.is

Ragnar Ómarsson

 • Ragnar Ómarsson
 • Byggingafræðingur
 • Svið: Byggingar
 • rom@verkis.is

Þjónusta

 • Hönnunarstjórnun og vottunarferli
 • Lagnir, loftræsing og val á byggingarefnum
 • Orkusparnaður, hljóðvist og umferðarskipulag
 • Lýsing og dagsbirtugreining
 • Viðhaldsáætlanir og viðhaldsgreiningar
 • Úrgangsstjórnun og mengunarvarnir
 • Lífsferilsgreining umhverfisáhrifa (LCA)
 • Lífsferilsgreining kostnaðar
 • Samfélagsgreiningar